Margar ekki fermdar þegar hún spilaði sinn fyrsta landsleik
Egill Bjarni Friðjónsson)

Birna Berg Haraldsdóttir (Egill Bjarni Friðjónsson)

Birna Berg Haraldsdóttir leikmaður ÍBV var ein af 17 leikmönnum sem Arnar Pétursson þjálfari kvennalandsliðs Íslands valdi í vikunni fyrir komandi landsliðsverkefni. Íslenska landsliðið undirbýr sig fyrir HM sem framundan er í lok nóvember.

Framundan er æfingavika sem hefst næstkomandi mánudag og líkur með æfingaferð til Danmerkur þar sem liðið mætir danska landsliðinu í vináttulandsleik  þann 20. september. Tveir nýliðar voru valdir í hópinn.

Birna Berg Haraldsdóttir varð 32 ára í sumar og er uppalinn hjá FH en hefur komið víða við á ferlinum og lék um tíma í atvinnumennsku. Birna Berg gekk í raðir ÍBV sumarið 2020 og hefur leikið með liðinu undanfarin fimm ár.

Birna Berg er að koma aftur inn í íslenska landsliðið en hún lék síðast með landsliðinu í umspilsleikjum Íslands fyrir HM árið 2021 gegn Slóveníu.

,,Ef ég á alveg að vera hreinskilin þá var ég eiginlega búin að gefa það uppá bátinn að vera valin aftur í landsliðið. Ég var orðin sátt við þá ákvörðun að loka þessum kafla á mínum ferli en þegar kallið kemur getur maður einhvern veginn ekki sagt nei. Bæði þar sem þetta er ákveðin viðurkenning fyrir mig sem leikmann og stolt sem fylgir því að fá að klæðast landsliðsbúningnum og spila fyrir landið sitt," sagði Birna Berg í samtali við Handkastið sem lék sinn fyrsta landsleik fyrir fjórtán árum síðan, eða í september 2011.

,,Fyrsti landsleikurinn var á æfingamóti í Póllandi sem var undirbúningur fyrir HM í Brasilíu. Við spiluðum við Pólland, Holland og Slóvakíu minnir mig," sagði Birna sem segist ómögulega muna við hvaða þjóð fyrsti landsleikurinn var gegn.

,,Enda komin 14 ár síðan og margar sem eru í liðinu í dag ekki einu sinni fermdar," sagði Birna Berg.

En hefur hún verið vonsvikin að hafa ekki fengið kallið fyrr?

,,Ég get ekki sagt að ég hafi verið vonsvikinn að hafa ekki fengið tækifæri fyrr. Síðan ég spilaði síðast landsleik árið 2021 hef ég slitið krossband, í þriðja skiptið og farið í þrjár hnéaðgerðir ásamt því að brjóta á mér hendina. Ég er búin að vera mikið meidd og fókusinn síðustu ár hefur eiginlega bara verið það að halda mer meiðslalausri og spila fyrir ÍBV," sagði Birna sem segir að skrokkurinn í dag sé ágætur þrátt fyrir aldur og fyrri störf og sína meiðslasögu í gegnum tíðina.

,,Ég er heppin að það er hugsað vel um mig í mínu félagsliði og Magnús stjórnar álaginu á mér og passar uppá mig. Enda er ég ekki tvítug lengur og hnén mín þola kannski ekki alveg jafnmikið æfingaálag og áður þannig ég hef svolítið verið að leggja áherslu á gæði umfram magn a æfingum til þess að lengja ferilinn," sagði Birna Berg að lokum í samtali við Handkastið.

Sage By Saga Sif styður kvennaumfjöllun Handkastsins - Kóðinn: handkastid veitir 15% afslátt í vefverslun Sage By Saga Sif.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top