Gabríel Martínez skoraði sigurmark ÍBV 2. (Eyjólfur Garðarsson)
ÍBV 2 hefur tryggt sér sæti í 16-liða úrslitum Powerade-bikarsins eftir eins marks sigur á Herði 36-35 í fyrsta leik 32-liða úrslita Powerade-bikarsins. Mikil dramatík var undir lok leiks þar sem þjálfari Harðverja fékk rautt spjald og skipta varð um tímavörð á síðustu sekúndum leiksins. ÍBV 2 var með undirtökin lengi vel í leiknum og voru 18-14 yfir í hálfleik þökk sé stórleik Björns Viðars Björnssonar í marki ÍBV 2. Harðverjar jöfnuðu þó metin í stöðunni 22-22 og allt virtist benda til þess að Ísfirðingar myndu fara áfram þegar þeir komust í 35-32 þegar tæplega fjórar mínútur lifðu leiks. Þá fór hinsvegar allt í baklás hjá gestunum og reynslu miklir Eyjamenn gengu á lagið - þó með hjálp frá ritaraborðinu sem var mannað af ungum drengjum, sennilega yngri flokka iðkendum ÍBV. Í stöðunni 34-35 fyrir Hörð tók þjálfari liðsins Pedro Daniel Dos Santos leikhlé þegar innan við mínúta var eftir af leiknum. Greinilega heyrðist í flautunni í útsendingunni frá leiknum í Handboltapassanum. 1-2 sekúndum síðar eru Harðverjar hinsvegar dæmdir brotlegir í sókn sinni. Í kjölfarið truflast varamannabekkur Harðar sem töldu sig hafa löngu vera búnir að biðja um leikhlé. Dómarar leiksins tóku enga ábyrgð heldur létu ábyrgðina í hendur ungra drengja sem voru á ritaraborðinu. Þeir hafa sennilega ekki séð atvikið betur en svo að dómarar leiksins ákvaðu að standa við dóm sinn. ÍBV 2 fékk boltann og leikhléið tekið af Herði. Við það sturlast þjálfari Harðar. Dómarar leiksins gátu ekki annað en vikið honum úr húsi. Á tímabili voru Harðverjar einungis þrír í vörn. Þetta nýttu Eyjamenn sér, og Gabríel Martinez jafnaði metin í 35-35. Hörður fór upp í sókn, Björn Viðar lokaði rammanum og varði síðasta færi gestanna og brunuðu upp í hraðarupphlaup og þar var Gabríel Martinez kominn fremstur og tryggði ÍBV eins marks sigur á ótrúlegan hátt. Það er ljóst að þessi leikur mun draga dilk á eftir sér enda var um algjöran skandal að ræða þegar dómarar leiksins ákváðu að leikhléið sem Hörður tók undir lokin var ekki tekið gilt og uppúr sauð með þeim afleiðingum að Eyjamenn fengu boltann og nýttu sér siðustu sekúndur leiksins einkar vel. Hinsvegar var frammistaða ÍBV 2 í leiknum frammúrskarandi á löngum köflum og léku á köflum frábæran handbolta jafnt í vörn og sókn. Markaskorun ÍBV 2: Theodór Sigurbjörnsson 14, Gabríel Martínez 6, Fannar Friðgeirsson 4, Garðar Benedikt Sigurjónsson 4, Þorlákur Sigurjónsson 3, Aron Heiðar Guðmundsson 2, Sindri Georgsson 1, Sigurður Bragason 1, Adam Smári Sigfússon 1, Markvarsla ÍBV 2: Björn Viðar Björnsson 11 Markaskorun Harðar: Sergio Barros 12, Endjis Kusners 7, Guilherme Carmignoli 4, Shuto Takenaka 4, Jose Neto 4, Gunnar Ingi Hákonarson 2, Jhonatan Dos Santos 1, Kei Anegayama 1, Markvarsla Harðar: Stefán Freyr Jónsson 1, Arturs Kugis 3
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.