HSÍ (HSÍ)
Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Handkastsins hættir Róbert Geir Gíslason störfum sem framkvæmdastjóri HSÍ um áramótin. Samkvæmt heimildum Handkastsins voru starfsmönnum HSÍ og öðrum sem tengjast sambandinu tilkynnt þetta fyrr í vikunni og er vænta tilkynningar frá HSÍ fyrir helgi. Róbert Geir hefur verið framkvæmdastjóri HSÍ frá árinu 2017 en hann tók við af Einari Þorvarðarsyni. Áður hafði Róbert Geir gegnt starfi mótastjóra HSÍ í rúman áratug. Orðrómur hefur verið uppi síðustu daga og vikur að Róbert Geir væri að hætta sem framkvæmdastjóri og sá orðrómur reyndist á rökum reistum ef af verður. Handkastið hefur farið á stúfana síðustu daga og samkvæmt heimildum hefur ekki verið ráðinn nýr aðili sem framkvæmdastjóri HSÍ heldur ætlar sambandið að auglýsa starfið á næstu dögum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.