HSÍ (HSÍ)
Róbert Geir Gíslason hættir sem framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands. Þetta staðfestir HSÍ í tilkynningu á heimasíðu sinni nú rétt í þessu. Handkastið greindi frá því fyrr í dag að Róbert Geir væri að hætta. Róbert hefur starfað hjá HSÍ í 22 ár og síðustu 9 ár sem framkvæmdastjóri. ,,Á þeim tíma hefur hann unnið ötult starf fyrir handknattleikshreyfinguna og lagt mikið af mörkum til uppbyggingar sambandsins og íslensks handknattleiks. Róbert mun starfa sem framkvæmdarstjóri HSÍ til 31.12.2025," segir í tilkynningunni frá HSÍ. „Ég tel þetta vera góðan tíma til að stíga frá borði og bjóða nýjum og ferskum vindum að koma inn í starfsemi HSÍ. Það hefur verið mikill heiður að fá að starfa fyrir sambandið í öll þessi ár og er ég þakklátur öllu því fólki sem ég hef starfað með í þennan tíma. Það eru forréttindi að hafa fengið að upplifa þessar stóru stundir með landsliðunum, þátttöku í stórmótum í blíðu og stríðu. Það er eitthvað sem ég verð alla tíð þakklátur fyrir og mun minnast," er haft eftir Róberti. Formaður HSÍ, Jón Halldórsson, þakkar Róberti fyrir hans óeigingjörnu störf í þágu handknattleiksins. „Róbert hefur verið einn af lykilmönnum í þeim árangri sem HSÍ hefur náð mörg undanfarin ár. Hann hefur helgað sig starfi HSÍ og haft ómetanleg áhrif á starf sambandsins. Við sem handknattleikshreyfing erum afar þakklát fyrir hans óeigingjarna framlag. Það segir sig sjálft að starfsmaður sem hefur skilað 22 árum til sambandsins hefur áorkað miklu. Róbert hefur reynst mér persónulega mjög vel síðan ég tók við sem formaður HSÍ og okkar samstarf hefur verið frábært.“ Stjórn HSÍ þakkar Róberti kærlega fyrir hans ómetanlegu störf í þágu handknattleiksins á Íslandi og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni.
,,Ég finn jafnframt að er nú rétti tíminn til breytinga fyrir mig. Ég hef nýverið lokið MBA námi og er spenntur að stíga inn á annan vettvang og þróast enn frekar sem einstaklingur og stjórnandi,“ segir Róbert.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.