Patrekur Jóhannesson (Sævar Jónsson)
ÍBV vann Stjörnuna í 3.umferð efstu deildar kvenna á sunnudaginn í lokaleik 3.umferðarinnar. Stjarnan var einu marki yfir þegar níu mínútur voru eftir en þá fór allt í baklás í sóknarleik Stjörnunnar og Eyjaliðið gekk á lagið. Stjarnan er enn án stiga á botni deildarinnar ásamt Selfossi. Í nýjasta þætti Handkastsins var rætt um stöðu Stjörnunnar. Stymmi klippari segir að sjálfstraustsleysi í liði Stjörnunnar hafi komið í ljós á lokakaflanum í Eyjum á sunnudaginn. ,,Þær hafa ekki unnið leik og lenda í umspilinu í vor. Tiltölulega breytt lið hjá Stjörnunni frá síðustu leiktíð. Þær voru vissulega á mjög erfiðum útivelli en ég held að það sé hægt að skrifa þetta á að kunnátta Stjörnuliðsins að vinna leiki er ekkert sérstaklega hátt. Það þarf til þess að vinna svona jafna leiki. Þá er leikmaður eins og Sandra Erlingsdóttir hjá ÍBV frábær, með 15 sköpuð færi og 12 stoðsendingar. Það munar að hafa svona elítu leikmann innan sinnar raða til að loka svona jöfnum leikjum. ,,Hún í raun klárar leikinn og Stjörnuliðið verða hræddar,” bætti Guðjón Guðmundsson við sem var gestur þáttarins. ÍBV er með fjögur stigum að loknum þremur umferðum. Stymmi var spurður að því sem grjótharður Stjörnumaður hvort hann hefði áhyggjur af gengi kvennaliðs Stjörnunnar. Stjarnan fær Val í heimsókn í kvöld klukkan 19:30 í 4.umferð efstu deildar kvenna. ,,Ég hafði áhyggjur af þeim í fyrra og þær áhyggjur verða ekkert minni í ár. Þær verða límdar við botninn og okkar von er að þær nái stigum gegn Selfossi og þessum liðum í kringum sig. Vonandi komum við okkur fyrir ofan neðstu línuna og vinnum þetta í umspilinu. Við elskum að fá góða spennuleiki í Garðabæinn á vorin. Það hefur verið lítið um það hjá karlaliðinu síðustu ár," sagði Stymmi klippari. Gaupi tók undir þau orð. ,,Þetta verður vesen fyrir Stjörnuna í vetur. Auðvitað er þetta nýtt lið og það er verið að reyna gera hluti sem þarf að gera en það getur tekið sinn tíma."
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.