wFramFram (Kristinn Steinn Traustason)
Fram og ÍR mættust í stórleik 4.umferðar í Olís-deild kvenna í Úlfarsárdalnum í dag en ÍR var með stigi meira en Fram fyrir umferðina. Eftir grátlegt jafntefli gegn Haukum í síðustu umferð mættu Fram stelpur ákveðnar til leiks og unnu tveggja marka sigur 32-30 eftir að hafa verið 18-14 yfir í hálfleik. Fram var með undirtökin allan leikinn og komst mest sjö mörkum yfir í stöðunni 24-17. Alfa Brá Hagalín fékk rautt spjald undir lok fyrri hálfleiks og þá fékk Kristrún Steinþórsdóttir rautt spjald í stöðunni 26-20. ÍR-liðið gerði vel undir lokin og minnkuðu muninn í tvö mörk en nær komust þær ekki. Sara Dögg Hjaltadóttir var allt í öllu í sóknarleik ÍR með tólf mörk og þá reyndist Sigrún Ása Ásgrímsdóttir Fram-vörninni erfið undir lokin og skoraði þrjú mörk á stuttum tíma. Hjá Fram var Hulda Dagsdóttir markahæst með átta mörk og þær Ásdís Guðmundsdóttir og Katrín Anna Ásmundsdóttir komu næstar með fimm mörk. Alfa Brá skoraði eitt mark áður en hún fékk rautt. Sif Hallgrímsdóttir var frábær í marki ÍR með 16 varin skot og Ethel Gyða var með rúmlega 10 varin skot í marki Fram.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.