Sara Dögg Hjaltadóttir (Sævar Jónasson)
Sara Dögg Hjaltadóttir leikstjórnandi ÍR var virkilega svekkt eftir tveggja marka tap liðsins gegn Fram á útivelli í 5.umferð Olís-deildar kvenna í dag, 32-30. Sara Dögg var í viðtali við Ingvar Örn Ákason í beinni útsendingu í Sjónvarpi Símans beint eftir leik. Þar var hún spurð út í fyrstu viðbrögð eftir leikinn. ,,Þetta var ekki góður leikur hjá okkur og við byrjuðum alltof illa og vorum að gera alltof marga klaufalega tæknifeila í byrjun. Síðan fannst mér við fá mörg góð tækifæri til að jafna metin en erum ekki að ná að koma boltanum í markið. Þetta er ógeðslega svekkjandi,” sagði Sara Dögg sem var markahæst í liði ÍR með 12 mörk í leiknum. ,,Mér leið ágætlega. Auðvitað er alltaf óþægilegt þegar maður er ekki að ná taktinum. Mér leið ekkert óþægilega en þetta er mjög svekkjandi.” ÍR hefur nú tapað tveimur leikjum í röð eftir tvo sigra í upphafi móts. ,,Við þurfum að bæta okkur. Þetta var ólíkt okkur í fyrri hálfleik og við vorum að gera tæknifeila sem við erum ekki vanar að gera, kasta boltanum útaf og í hendurnar á þeim. Við þurfum að horfa á þennan leik og gera betur.” Sara Dögg hefur verið frábær í upphafi móts og segist líða mjög vel inn á vellinum um þessar mundir. ,,Mér líður mjög vel, þetta er allt að koma og það er ógeðslega gaman að spila með þessu liði,” sagði Sara Dögg að lokum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.