Segir tíma Bjarka Más með landsliðinu ekki liðinn
Tom Weller / dpa Picture-Alliance via AFP)

Bjarki Már Elísson (Tom Weller / dpa Picture-Alliance via AFP)

Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari Íslands valdi 17 manna leikmannahóp í landsliðsverkefni í lok október þar sem landsliðið kemur saman í Þýskalandi og leikur þar tvo æfingaleiki gegn Þjóðverjum.

Athygli vekur að Bjarki Már Elísson vinstri hornamaður Veszprém er ekki í landsliðshópnum að þessu sinni. Snorri Steinn Guðjónsson var spurður í viðtali við Handkastið eftir að landsliðshópurinn var tilkynntur hvort tími Bjarka Más með landsliðinu væri liðinn.

,,Það er bara mjög langt frá því. Ég er mjög ánægður með það sem ég hef séð af Bjarka í vetur. Hann er í toppstandi og er að spila fullt af alvöru leikjum. Hann er frábær hornamaður," sagði Snorri Steinn sem segist ekkert endilega hafa þurft að sjá Bjarka Má í því verkefni sem framundan er.

,,Hann kom inn í síðasta glugga eins og ekkert hafi ískorist og var frábær. Hann spilaði frábærlega í Bosníu og ég held að ef út í það fari að ég velji hann fyrir EM í janúar þá verði það ekki neitt vesen," sagði Snorri sem bendir á ástæðuna fyrir vali sínu frekar á Orra Frey Þorkelssyni leikmanni Sporting og Stiven Tobar Valencia leikmanni Benfica í Portúgal.

,,Ég held að flestir sjái það að ástæðan fyrir því að ég vel Stiven framyfir Bjarka er vegna þess að ég vil sjá hann spila í bakverðinum."

,,Það er alveg hægt að diskútera það hvor sé betri akkúrat í horninu, en mér finnst Bjarki og Orri vera líkari hvor öðrum fremur en Stiven sem gefur okkur aðrar víddir. Það getur vel verið að sú staða komi upp að miðjumaður eða skytta þurfi að spila horn varnarlega og fækka skiptingum og þá gæti Stiven reynst okkur vel," sagði Snorri Steinn í viðtali við Handkastið.

Hægt er að sjá landsliðshópinn hér.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top