Ég held að Bjöggi viti það manna best sjálfur að hann hefði getað gert betur
Kristinn Steinn Traustason)

Björgvin Páll Gústavsson (Kristinn Steinn Traustason)

Það kom mörgum á óvart að Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari Íslands ákvað að velja þrjá markverði í nýjasta landsliðshóp sinn sem kemur saman í lok október og leikur tvo æfingaleiki gegn Þjóðverjum í Þýskalandi.

Snorri Steinn var í viðtali við Handkastið strax eftir að hópurinn var kynntur og þar var hann spurður út í þá ákvörðun hans að velja þrjá markverði í hópinn, þá Viktor Gísla Hallgrímsson, Ágúst Elí Björgvinsson og Björgvin Pál Gústavsson.

,,Ég vildi sjá þá báða. Við höfum velt þessari stöðu vel fyrir okkur og eðlilega og alveg frá því að ég tók við liðinu hefur alltaf verið vangaveltur um Björgvin Pál. Líka bara útaf aldri, þá fara menn ósjálfrátt að velta þessu fyrir sér. Auðvitað hefur hann ekki verið upp á sitt allra besta í upphafi tímabils og ég átti samtal við hann um það.”

Björgvin Páll hefur ekki sýnt neinar flugeldasýningar í upphafi tímabils hjá Val og á sama tíma er Ágúst Elí Björgvinsson í litlu sem engu hlutverki hjá danska félaginu Ribe Esbjerg en hann hefur verið undan hóps í undanförnum leikjum.

,,Þrátt fyrir að Bjöggi sé með þessa reynslu og hafi farið á öll þessi stórmót þá er erfitt að rýna í Olís-deildina út frá því hvað gerist svo í janúar eða á því sviði sem við erum að fara í núna gegn Þýskalandi,” sagði Snorri Steinn sem segist einfaldlega vilja sjá hvort Björgvinn vaxi ekki bara á stærra sviði með landsliðinu í Þýskalandi.

,,Það er mín reynsla að því stærra sem sviðið er, því betur líður honum. Ég vil sjá hvort það sé ekki ennþá til staðar.”

,,Varðandi Ágúst Elí þá er mjög langt síðan hann var í hópnum, hann var með okkur í Grikklandi fyrir rúmlega ári síðan. Staða hans er engu að síður erfið. Hann er kominn aftur til Ribe-Esbjerg og var upp í stúku í síðasta leik,” sagði Snorri sem segir það augljóst að hvorki hann né Ágúst Elí sjálfur viti hvert framhaldið verði. Það sé í höndum þjálfara Ribe Esbjerg.

,,Ég var mjög heiðarlegur við hann varðandi það, að ef hann verður upp í stúku alla leiki fram í janúar þá verður ósjálfrátt mjög erfitt fyrir mig að velja hann í lokahópinn.”

Næst var Snorri spurður út í hvort frammistaða Björgvins Páls á tímabilinu með Val hafi haft þau áhrif að Ágúst Elí hafi verið valinn í þetta skiptið.

,,Auðvitað horfi ég alltaf á frammistöður leikmanna og ég held að Bjöggi viti það manna best sjálfur að hann hefði getað gert betur í upphafi leiktíðar með Val. Eitthvað hangir það saman við það að Valur hefur ekki náð sér almennilega á strik og annað slíkt. Þeir hafa verið að föndra með sinn varnarleik og allt hefur þetta einhver áhrif.”

,,Alveg eins og með aðra leikmenn, þá met ég stöðuna hverju sinni og akkúrat núna vildi ég sjá Bjögga í akkúrat þessu umhverfi sem við erum að fara í,” sagði Snorri Steinn að lokum varðandi markvarðarstöðuna í viðtali við Handkastið í síðustu viku.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top