Hildur Lilja Jónsdóttir (Kristinn Steinn Traustason)
Hin örvhenta, Hildur Lilja Jónsdóttir leikmaður Fram í Olís-deild kvenna er að glíma við meiðsli í hásin. Þetta staðfesti Haraldur Þorvarðarson þjálfari Fram í samtali við Handkastið. Hildur Lilja var í leikmannahópi Fram í tapi liðsins gegn nýliðum KA/Þórs í 6.umferð Olís-deildar kvenna á laugardaginn en hún var aldrei að fara spila þann leik. Haraldur sagði í viðtali við Ingvar Örn Ákason fyrir leikinn í Sjónvarpi Símans að Hildur Lilja væri að glíma við meiðsli en hún var samt sem áður í leikmannahópi Fram. ,,Samkvæmt læknisráði þá er henni ekki ráðlagt að spila. Það er óvíst hvernig framhaldið verður hjá henni en hún gæti verið frá í einhvern tíma,” sagði Haraldur í samtali við Handkastið. Fram er í 6.sæti Olís-deildarinnar með fimm stig að loknum sex leikjum. Liðið mætir ÍBV í næstu umferð á laugardaginn næstkomandi en í millitíðinni mætir liðið Grill66-deildarliði HK í 16-liða úrslitum Powerade-bikarsins í kvöld klukkan 19:30. HK er á toppi Grill66-deildarinnar með fullt hús stiga eftir sex leiki.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.