wFram (Kristinn Steinn Traustason)
Mikil óánægja ríkir í herbúðum Fram eftir að HSÍ tilkynnti félaginu að leik kvennaliðs félagsins gegn ÍBV sem fara átti fram í Úlfarsárdalnum í dag hafi verið frestað til morguns. Í tilkynningunni frá HSÍ segir að breyting hafi verið gerð á ferðum Herjólfs í morgun með þeim afleiðingum að lið ÍBV hafi ekki átt kost á því að komast til lands í tæka tíð. Framarar segja að þessi fullyrðing haldi ekki vatni og eru mjög ósáttir með vinnubrögð ÍBV og HSÍ. Hafa heimildarmenn Handkastsins vilja meina að ÍBV hafi verið búið að ákveða í gær að liðið myndi ekki koma í land í dag. Voru leikmenn kvennaliðs ÍBV til að mynda að vinna á dömukvöldi ÍBV í gærkvöldi. Þá lék liðið erfiðan leik gegn Gróttu í vikunni sem framlengdur var en liðið endaði á að tapa gegn Grill66-deildarliði Gróttu á miðvikudagskvöldið. Hafa Framarar sem Handkastið hefur heyrt í, í dag velt því fyrir sért hvort ÍBV hafi verið að leitast eftir einum degi í viðbót til að jafna sig eftir þann leik. Herjólfur sigldi til Þorlákshafnar klukkan 7:00 í morgun en ÍBV áttu samkvæmt heimildum Handkastsins miða í Herjólf klukkan 9:30 hefði hann siglt til Landeyjahafnar. Herjólfur sigldi hinsvegar til Þorlákshafnar í gær og vilja Framarar meina að ÍBV hafi vitað betur og það hafi verið afar ólíklegt að siglt yrði til Landeyjahafnar í morgun. ,,Ég er verulega ósáttur með þessa ákvörðun og vinnubrögð HSÍ í þessu máli. Það er nokkuð ljóst að það er ekki sama hver á, í hlut. Þegar við ferðumst til Vestmannaeyja er okkur gert ljóst fyrir af HSÍ að við þurfum að ferðast með Herjólfi frá Þorlákshöfn á leikdegi eða þá að ferðast deginum áður,” sagði Haraldur Þorvarðarson þjálfari Fram mjög ósáttur í samtali við Handkastið. ,,Þetta hefur veruleg áhrif á okkar lið, sjálfboðaliða félagsins og aðra. Fram 2 á leik á morgun gegn Gróttu sem þarf að færa og þá hefur þetta einnig áhrif á leikja plan 3.flokks liðs okkar,” sagði Haraldur sem bendir á að í 3. grein vinnuregla vegna ferðalaga og frestana meistaraflokks tímabilið 2025-2025 segir: Ákveði félög að sigla með Herjólfi og sé útgefið af Herjólfi að hann sigli frá Þorlákshöfn á leikdag er leik ekki frestað heldur ber félagi að mæta til leiks. ,,Ég veit ekki hvað hefur breyst í þessum reglum. Herjólfur sigldi frá Vestmannaeyjum í morgun og ÍBV liðið sat eftir heima,” sagði Haraldur. ,,Þetta er verulega dapurt. Við höfðum heyrt frá því í gær að til stóð af Eyjaliðinu að koma ekki í bæinn í dag. Við hlustuðum ekki á þær sögusagnir. Síðan kemur það í ljós að þær sögusagnir voru greinilega réttar,” sagði Haraldur sem hlakkar til leiksins gegn ÍBV á morgun en HSÍ hefur sett leikinn á klukkan 18:30 annað kvöld. Fram heldur fjöllmiðlamót í húsinu sínu um helgina og allt skipulag og vinna sjálfboðaliða hafi tekið mið af þeirri dagskrá sem búið var að gefa út fyrir helgina. Þetta hafi því haft mikil áhrif á þá vinnu sem unnin var í aðdraganda helgarinnar.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.