wGrótta (Eyjólfur Garðarsson)
Umræðan um stöðu kvenna handboltans kom upp í hlaðvarpsþætti Handkastsins síðasta föstudag þar sem Einar Örn Jónsson og Aðalsteinn Eyjólfsson voru gestir Stymma klippara. Þar var rætt um tvo óvænta sigra tveggja lið í Grill66-deildinni gegn Olís-deildarliðum. Það hefur sennilega ekki gerst áður að tvö lið úr næst efstu deild slá út efstu deildarlið sama kvöldið í bikarkeppni HSÍ. Aðalsteinn Eyjólfsson sem þjálfar karlalið Víkings í Grill66-deildinni þjálfað lengi vel í kvennaboltanum hér heima áður en hann fór erlendis að þjálfa í tæp 20 ár. Hann liggur hvorki né situr sjaldan á skoðunum sínum og það kom ágætlega í ljós í þættinum á föstudaginn. ,,Fyrst ég er mættur hingað og ég er greinilega kominn í einhvern árásarham. Staða kvennahandboltans á Íslandi er í sögulegu lágmarki. ,,Ég vann í kvennahandboltanum í mörg ár bæði í yngri flokkum og í meistaraflokki og hef ýmsa fjöruna sopið. Breidd liða hefur aldrei verið minni, þátttaka í yngri flokkum er í frostmarki. Það eru fullt af félögum sem ná ekki í lið í 3.flokki kvenna, 4.flokkarnir eru fámennir. Það þarf gríðarlegt átak til að ná því upp,” sagði Aðalsteinn meðal annars og segir að átta liða úrvalsdeildin sé ekki málið í dag. ,,Þetta er orðin tímaskekkja miðað við úrslitin undanfarin tvö ár milli Grill66 og Olís-deildarliða. Að vera með átta lið úrvalsdeild og leikmenn þar safnist í einhver 2-3 lið og hin liðin standa ekki út úr hnefa og vinna ekki liðin í Grill-inu. Þetta er ekki rétta leiðin til að byggja upp breidd og huga að grasrótinni í kvennahandboltanum.” ,,Ég hef verulegar áhyggjur af, bæði hugarfari hvernig þetta er gert og hvert við erum að stefna með það að vera með 2-3 lið á Íslandi sem geta spilað handbolta á einhverju stigi. Mér finnst þetta ekki góð þróun,” sagði Aðalsteinn sem segir að breiddin í kvenna handboltanum þurfi að aukast svo félögin hafi einhverja til að keppa við. Kvennalið ÍBV og Stjörnunnar töpuðu gegn Grill66-deildarliðum Gróttu og FH í 16-liða úrslitum Powerade-bikarsins í síðustu viku. Stjarnan situr á botni Olís-deildarinnar og var með núll stig þegar þessi þáttur var tekinn upp. ,,Við erum að tala um kvennalið Stjörnunnar sem var flaggskip félagsins í 20-30 ár. Þær hafa unnið langflestu titla félagsins og yfirleitt var félagið með langbesta starfið á landinu. Það félag nær ekki í lið í 3.flokki og tæplega í 4.flokki og vinna ekki leik orðið í Olís-deildinni. Það segir bara hversu alvarleg staðan er orðin þegar félag með svona hefð er komið í svona stöðu. Þetta er grafalvarleg staða sem er komin upp.” Hægt er að hlusta á umræðuna um kvenna handboltann sem hefst eftir rúmlega 40 mínútur af þættinum á föstudaginn síðasta.Þátttaka í yngri flokkum í frostmarki
Grafalvarleg staða

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.