Lovísa Thompson (Baldur Þorgilsson)
Íslenska kvennalandsliðið kom saman til æfinga í gær fyrir heimsmeistaramótið sem hefst í næstu viku. Fyrsti leikur Íslands á mótinu verður gegn gestgjöfunum í Þýskalandi fyrir framan fulla höll af áhorfendum. Áður en mótið hefst leikur Ísland æfingaleik gegn Færeyjum, í Færeyjum næstkomandi laugardag. Arnar Pétursson landsliðsþjálfari Íslands hefur gert breytingar á leikmannahópi sínum en Matthildur Lilja Jónasdóttir leikmaður ÍR hefur verið kölluð inn í hópinn vegna meiðsla Andreu Jacobsen leikmanns Blomberg-Lippe í Þýskalandi. Óvissa ríkir um þátttöku Andreu á mótinu en hún sleit liðband á ökkla á æfingu þýska liðsins fyrir rúmlega viku síðan. Rætt var um það áfall fyrir liðið í nýjasta þætti Handkastsins í gær þar sem Ásgeir Jónsson var gestur þáttarins. ,,Þetta er alvöru verkefni sem landsliðsþjálfarnir eru með í sínum höndum eftir að Andrea meiðist. Það er alveg ljóst á þessum leikjum í undankeppninni að það var verið að byggja upp vörnina í kringum hana. Hún var bæði að spila fyrir framan í 5-1 og fyrir miðri vörninni,” sagði Ásgeir og á þá við leiki Íslands gegn Færeyjum og Portúgal í undankeppni fyrir EM sem báðir töpuðust. Hann segir að meiðsli Andreu þýði að Lovísa Thompson leikmaður Vals hljóti að fá stærra hlutverk innan liðsins bæði varnar og sóknarlega. ,,Þetta hlýtur að þýða það að Lovísa Thompson er að fara spila miklu stærra hlutverk en upphaflega stóð til. Auðvitað er liðið lánssamt að svona reyndur leikmaður sem þarf að stíga upp. Það mun mæða mikið á Lovísu bæði varnar og sóknarlega fyrst það er óvissa með Andreu,” sagði Ásgeir til að mynda í Handkastinu.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.