Andrea Jacobsen - wísland (BO AMSTRUP / Ritzau Scanpix via AFP)
Eins og Handkastið greindi frá fyrst allra þá hefur Arnar Pétursson þjálfari kvennalandslið Íslands kallað inn Matthildi Lilju Jónasdóttur leikmann ÍR í HM hóp sinn vegna meiðsla sem Andrea Jacobsen leikmaður Blomberg-Lippe er að glíma við. Fyrsti leikur Íslands á heimsmeistaramótinu fer fram í Þýskalandi gegn Þjóðverjum eftir viku. Arnar Pétursson heldur þó í vonina að Andrea geti spilað á HM þrátt fyrir meiðslin. Þetta sagði hann í viðtali við RÚV í gær. ,,Þetta er staða sem við tökum dag frá degi og sem betur fer eru framfarirnar góðar eins og er og við vonum það besta. Það er kannski full bratt að ætla að búast við því að hún verði orðin góð fyrir fyrsta leik en við stefnum að því,” sagði Arnar í samtali við RÚV. Þar sagði hann ennfremur að hann hugsi Matthildi bæði í hafsentastöðuna varnarlega í 6-0 og fyrir 5-1 vörnina. Hann sagði að Matthildur hafi sýnt ákveðna hegðun sem hann er hrifinn af, hún vilji berjast og sé óhrædd við að fara í bardaga. Andrea sagði í viðtali við RÚV að staðan líti ágætlega út. Hún viðurkenndi að hafa verið mjög neikvæð til að byrja með en nú sé þetta að þróast ágætlega og hún sé minna bólgin.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.