Frank Carstens (Andreas Gora / dpa Picture-Alliance via AFP)
Botnlið Leipzig í þýsku úrvalsdeildinni er Blær Hinriksson leikur hafa gert þjálfaraskipti hjá sér en Spánverjinn, Raul Alonso sem tók við liðinu í sumar hefur sagt skilið við félagið. Erfiðlega hefur gengið hjá liðinu að safna stigum á tímabilinu en liðið situr á botni deildarinnar með einungis tvö stig. Þá hefur íþróttastjóri félagsins, Bastian Roscheck einnig verið rekinn. Frank Carstens hefur verið ráðinn nýr þjálfari liðsins. ,,Brottrekstur Alonso á þessum tímapunkti kemur ekki á óvart miðað við hrun Leipzig, sem er enn án sigurs á þessu tímabili í Bundesligunni. Roscheck er líklega kennt um misheppnaða leikmannastefnu. Á undanförnum mánuðum hefur Leipzig misst fjölmarga lykilmenn eins og Viggó Kristjánsson og Luca Witzke án þess að fylla þau skörð almennilega,” segir í grein Handball-world.news um málið. ,,Ég þakka þeim báðum fyrir tímann sinn hjá félaginu, hugmyndir og ástríðu fyrir Leipzig. Þangað til í leiknum gegn Minden trúðum að við myndum ná árangri með þeim, en við urðum að viðurkenna vandann og að sú þróun sem óskað var eftir væri ekki að verða að veruleika og að fall væri í bráðri hættu,“ er haft eftir framkvæmdastjóra félagsins Karsten Günther í yfirlýsingu frá félaginu. Leipzig tapaði með sex mörkum, 32-26 gegn Minden á útivelli í síðasta leik. Minden voru með fimm stig fyrir leikinn og vonir stóðu til í herbúðum Leipzig að þarna kæmi fyrsti sigur tímabilsins. ,,Þess vegna höfum við ákveðið að skipta um í brúnni strax og munum gera allt sem við getum til að halda Leipzig í „sterkustu deild í heimi“,“ leggur Günther áherslu á og vonast til að hlutirnir breytist undir stjórn Frank Carstens. Frank Carstens þjálfaði síðast HSG Wetzlar en tók nýlega við handboltaverkefni í Bandaríkjunum. Hann snýr nú aftur í þýsku úrvalsdeildina fyrr en búist var við. Hann var kynntur fyrir liðinu í dag. Leipzig hefur boðað til blaðamannafundar síðdegis á morgun, þar sem Günther og Carstens munu útskýra ákvörðunina í smáatriðum. Næsti leikur Leipzig verður gegn Íslendingaliðinu í Gummersbach um næstu helgi á útivelli.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.