Þorsteinn Leó Gunnarsson (Kristinn Steinn Traustason)
Slæm tíðindi bárust úr herbúðum Strákanna okkar í vikunni þegar Handkastið greindi frá því fyrst allra miðla að Þorsteinn Leó Gunnarsson leikmaður Porto væri meiddur á nára. Eftir myndatöku sem hann fór í, á miðvikudag kom í ljós að hann verður frá keppni í það minnsta 10 vikur en einungis átta vikur eru þangað til að Evrópumótið hefjist í janúar. ,,Stærstu tíðindi vikunnar eru án efa meiðsli Þorsteins Leó Gunnarssonar. Sem mun að öllum líkindum ekki leika með Íslandi á EM. Þetta eru í fyrsta lagi hræðileg tíðindi fyrir hann, vond tíðindi fyrir Snorra Stein en hugur minn er í Mosfellsbænum,” sagði Arnar Daði Arnarsson þáttastjórnandi Handkastsins þegar hann opnaði á umræðuna um meiðsli Þorsteins Leós í nýjasta þætti Handkastsins. ,,Ég er líka mjög svekktur fyrir þessu. Þetta var jókerinn okkar. Þetta var gaurinn sem átti að koma inn og höggva á einhverja ákveðna hnúta þegar við værum í basli. Þetta var nýi Aron Pálmarsson fyrir mér. Ég var spenntur að sjá hvað hann myndi gera í janúar. Nú hefur hann tekið við af Aroni með að veita mér vonbrigði vegna meiðsla og öðru. Þetta er stórskrokkur og nárameiðsli, látið mig þekkja það. Nárameiðsli geta verið þráðlát. Stemningin datt aðeins niður við þessar fréttir,” bætti Stymmi klippari við áður en Kristinn Björgúlfsson sem horfði á atvikið tók við. ,,Þetta gerist líka snemma leiks og þetta lítur illa út. Hann fer beint útaf, hann reynir ekki einu sinni. Þetta eru ekki góð tíðindi fyrir okkur sem vorum að gæla við að hann fengi stórt hlutverk,” sagði Kristinn en Þorsteinn meiddist snemma leiks Porto gegn Elverum í Evrópudeildinni á þriðjudagskvöldið. Umræðan hélt áfram í þættinum þar sem rætt var um hverjir gætu fyllt skarð Þorsteins Leós í landsliðinu.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.