Xenia Smits (Franks Cilius / Ritzau Scanpix via AFP)
Íslenska kvennalandsliðið hefur leik á heimsmeistaramótinu á morgun þegar liðið mætir gestgjöfum Þýskalands í Stuttgart klukkan 17:00. Fyrirfram má búast við afar erfiðum leik hjá stelpunum okkar gegn einu sterkasta liði heims í dag. Rakel Dögg Bragadóttir var gestur í Handboltahöllinni í Sjónvarpi Símans í gær og var spurð út í væntingar og stöðuna á liðinu fyrir mótið. ,,Fyrirfram er það stóri úrslitaleikurinn fyrir okkur að komast uppúr riðlinum þegar við mætum Úrúgvæ. Það er þrjú lið sem fara áfram í milliriðla og neðsta liðið fer í Forsetabikarinn sem við unnum á síðasta heimsmeistaramóti. Vonandi verður við það ekki eftir þetta mót.” ,,Þýskaland er ein allra sterkasta þjóð í heimi og þær eru á heimavelli. Það verður rosalega erfiður leikur ég held að það sé alveg nokkuð ljóst. Sama með Serbíu, þær eru alltaf sterkar. Þær eru ekki í topp 8 en það er erfitt að mæta þessum þjóðum. Það ríkir mikil handboltahefð og þetta er sterkt lið,” sagði Rakel Dögg sem benti á að liðið væri í svokölluðum uppbyggingarfasa um þessar mundir. ,,Við erum í ákveðinni vegferð með nýtt lið. Það eru fullt af reynslu litlum leikmönnum sem eru að taka stærra hlutverk og sérstaklega varnarlega. Við höfum verið í veseni að ná varnarleiknum góðum,” sagði Rakel Dögg en var ánægð með sigur liðsins gegn Færeyjum í æfingaleik síðasta laugardag sem gaf góð fyrirheit fyrir mótið.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.