Dana Björg Guðmundsdóttir (Kristinn Steinn Traustason)
Heimsmeistaramót kvenna hefst á morgun þegar stelpurnar okkar ríða á vaðið og mæta gestgjöfum Þýskalands í opnunarleik mótsins klukkan 17:00 á íslenskum tíma í Porsche-Arena í Stuttgart. Löngu er orðið uppselt á leikinn enda ríkir mikil eftirvænting í Þýskalandi fyrir keppninni. Veðbankar keppast um að búa til stuðla um hitt og þetta sem tengjast mótinu og fór Handkastið veðbanka íslensku þjóðarinnar, Coolbet og athugaði hvað þau höfðu upp á að bjóða. Ísland leikur í C-riðli ásamt Þýskalandi, Úrúgvæ og Serbíu. Þýskaland er talið sigurstranglegasta liðið til að vinna riðilinn með 1.18 í stuðul en Serbía er með 5 í stuðul. Stuðullinn á að Ísland vinni riðilinn er 40 en nær engar líkur telur Coolet að Úrúgvæ vinni riðilinn sem er með 400 í stuðul. Miðað við þetta gerir Coolbet fastlega ráð fyrir því að íslenska liðið komist áfram í milliriðil en þrjú efstu lið riðilsins komast þangað. Elín Klara Þorkelsdóttir er talin líklegust til að vera markahæsti leikmaður Íslands á mótinu en stuðulinn á það er 2.15. Næst kemur Sandra Erlingsdóttir með stuðulinn 3 en Sandra er fyrirliði liðsins. Næst á eftir þeim kemur Thea Imani Sturludóttir með stuðulinn 7 en athygli vekur að Andrea Jacobsen sem glímir við meiðsli er talin vera fjórða líklegust til að vera markahæst.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.