Ísland (KERSTIN JOENSSON / AFP)
Heimsmeistaramót kvenna í handbolta er fór af stað í vikunni og leikur íslenska landsliðið til að mynda sinn annan leik á mótinu í kvöld gegn Serbíu klukkan 19:30. Sterk umræða hefur skapast í kringum mótið um keppnisstuttbuxur leikmanna en alþjóðahandboltasambandið var ekki tilbúið að hlusta á áhyggjur handboltakvenna fyrir mótið sem óskuðu eftir því að vera ekki tilneyddar til að leika í hvítum stuttbuxum á mótinu. Leikmenn þeirra þjóða sem eru í hvítum stuttbuxum eru því skyldaðar að spila í hvítum buxum sem flestir vilja ekki sjá. Hvítu stuttbuxurnar verða áfram notaðar, þrátt fyrir að meðal annars leikmenn norska og sænska kvennalandsliðsins hafi sérstaklega beðið um að þær yrðu teknar úr notkun. Óskuðu leikmenn Svíþjóðar og Noregs eftir því við IHF að fá að losna við það að þurfa að spila í hvítum stuttbuxum þrátt fyrir að búningarnir væru hvítir til að forðast óþægindi og óöryggi hjá leikmönnum sem eru á blæðingum. Íslenska kvennalandsliðið er ein af þeim þjóðum sem leikur í hvítum stuttbuxum við varatreyju sína sem er einnig hvít. Handkastið heyrði í fyrirliða íslenska landsliðsins, Söndru Erlingsdóttur leikmanns ÍBV í Olís-deild kvenna sem leikur alla jöfnu í hvítum búning og hvítum stuttbuxum hér heima. Það var þó breyting á, í síðasta leik liðsins gegn Stjörnunni í lokaumferð Olís-deildarinnar fyrir HM pásuna er ÍBV lék í hvítri treyju og svörtum stuttbuxum. ,,Það hefur verið umræða um þetta í Vestmannaeyjum og við spiluðum í svörtum stuttbuxum í síðasta deildarleik og það verður líklega þannig áfram. Það hafa komið upp tilfelli þar sem það hefur blætt í gegn hjá stelpum í liðinu,” sagði Sandra Erlingsdóttir sem segist vera svo lánssöm sjálf að hún hafi ekki þurft að hafa áhyggjur af þessu sjálf. ,,Fyrir hönd þeirra sem þurfa að hafa áhyggjur af þessu er ég alveg sammála því að það þarf að gera breytingar um að stelpur leiki ekki í hvítum keppnisstuttbuxum. Það er alveg hræðileg tilhugsun að vera einbeita sér að leiknum en á sama tíma eru leikmenn með áhyggjur hvort það sé verið að blæða í gegn eða ekki,” sagði Sandra í samtali við Handkastið en hún sagðist ekki hafa verið var við umræðuna um þetta hjá íslensku leikmönnunum. Hún ítrekar að hún skilji þær stelpurnar sem þurfa að hafa áhyggjur af þessu 100% og myndi styðja þá ákvörðun að taka hvítar stuttbuxur hjá kvenmönnum úr umferð. Þá benti Sandra á, að leikmenn í hvítum búningum eru tölvert líklegri til að þurfa að skipta um treyju eða stuttbuxur farið blóð í þeirra búninga eftir sár. Sagðist hún til að mynda hafa lent í því sjálf í vetur í leik með ÍBV að hafa þurft að skipta um stuttbuxur þar sem hún hafði fengið sár á puttann og blóð hafi farið í stuttbuxurnar hennar. ,,Í kjölfarið var ég neydd til þess að skipta um stuttbuxur en ef ég hefði verið í svörtum stuttbuxum þá hefði enginn séð það,” sagði Sandra og bendir á að það sama eigi við um leikmenn í karlaboltanum. ,,Blóð sést töluvert betur á hvítum búningum heldur en svörtum.”

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.