Ísland - Katrín Tinna Jensdóttir - Emily Vogel (THOMAS KIENZLE / AFP)
Þetta er hneyksli og kinnhestur fyrir þýskan kvenna handbolta var meðal þess sem forseti þýska handknattleikssambandsins, Andres Michelmann kallaði ástandið eftir að bein útsending Eurosport frá leik Þýskalands og Íslands í opnunarleik heimsmeistaramóts kvenna rofnaði og einungis átta mínútur voru sýndar í beinni af leiknum á Eurosport. Eftir að þýsku sjónvarpsstöðvarnar, ARD og ZDF höfðu tilkynnt að þau ætluðu ekki að hefja útsendingar af mótinu fyrr en í 8-liða úrslitum varð andrúmsloftið í Þýskalandi þrungið spennu eins og það er orðað í frétt Handbolta.is um málið. Andrúmsloftið varð ekki léttara eftir að útsending Eurosport rofnaði frá opnunarleik mótsins eftir átta mínútna leik og í kjölfarið hófst gömul útsending frá keppni í skíðastökki, þýskum sjónvarpsáhorfendum til lítillar gleði. Eurosport hafði tilkynnt að stöðin myndi sýna leiki Þýskalands í mótinu í heild sinni með smá seinkun. En eftir átta mínútna útsendingu á viðureign Þýskalands og Íslands fór myndin á skjánum að frjósa, rödd lýsandans hvarf og þegar staðan var 5-4 rofnaði útsendingin. Eftir að leiknum lauk sendi Europort loks frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að tæknilegir öröðugleikar hafi orðið þess valdandi að ekki var hægt að halda útsendingunni áfram af leiknum. Þýskaland mætir Úrúgvæ í 2.umferð keppninnar í dag klukkan 17:00 og gert er ráð fyrir því að allur leikurinn verður sýndur í beinni í Þýskalandi á Eurosport rásinni.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.