Aldís Ásta Heimisdóttir (Egill Bjarni Friðjónsson)
Leikstjórnandi sænsku meistarana í Skara. Aldís Ásta Heimisdóttir er ólétt og mun ekki snúa aftur til leiks þegar deildin byrjar aftur eftir jólin. Í staðin hefur hún ákveðið að flytja heim til Íslands, þar sem hún og kærastinn hennar bíða barns í vor. Það er sænski miðilinn, Handbollskanalen sem greinir frá. Aldís Ásta er á sínu fjórða tímabili með Skara sem átti drauma tímabil á síðustu leiktíð er liðið vann tvöfalt en nú hefur framtíðin tekið óvænta stefnu. Ákvörðunin um að yfirgefa Skara var ekki auðveld segir Aldís Ásta. „Ég mun sakna Skara mjög mikið og ég er svo þakklát fyrir þann tíma sem ég fékk þar og allt fólkið sem ég hitti og bjó til minningar með. Mín besta minning er auðvitað sænski meistaratitillinn frá síðasta tímabili,“ sagði Aldís Ásta sem er uppalinn á Akureyri og lék með KA/Þór áður en hún hélt út. Í viðtalinu við Handbollskanalen segir Aldís Ásta stefna á endurkomu í handboltann eftir barnsburð og bendir þar á leikmenn sem hafa komið til baka eftir barnsburð sem hún segist mun leita ráða til þegar kemur að því að snúa til baka í handboltann. Á Íslandi mun hún starfa sem hjúkrunarfræðingur fram að fæðingu barnsins, með það að markmiði að ljúka námi sínu næsta haust. Á sama tíma vinnur Skara HF hörðum höndum að því að finna staðgengil fyrir hana. Íþróttastjóri félagsins segir að það verði erfitt að fylla skarð Aldísar Ástu á þessu tímapunkti en óskar fjölskyldunni til hamingju með tíðindin. Aldís Ásta var ein af lykilmönnum Skara á síðustu leiktíð. Skara er sem stendur í 3.sæti sænsku deildarinnar tveimur stigum á eftir Savehof sem er á toppi deildarinnar.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.