Andrea Jacobsen - wísland (BO AMSTRUP / Ritzau Scanpix via AFP)
Andrea Jacobsen verður ekki með íslenska landsliðinu í leiknum gegn Svartfjallandi í fyrsta leik þjóðanna í millriðli á heimsmeistaramótinu sem fram fer á morgun. Arnar Pétursson sagði í samtali við Handkastið fyrr í dag að reynt yrði á Andreu með liðinu á æfingu liðsins í Dortmund seinni partinn í dag. Eftir góðan bata síðustu daga varð hinsvegar ljóst á æfingunni áðan að Andrea yrði ekki leikfær fyrir leikinn á morgun. Arnar Pétursson staðfesti því eftir æfinguna í dag að Andrea væri ekki orðin klár en hún tognaði illa á ökkla rúmri viku fyrir heimsmeistaramótið á æfingu með félagsliði sínu, Blomberg-Lippe. Andrea hefur því ekkert getað spilað með íslenska landsliðinu á mótinu en leikurinn gegn Svartfjallalandi á morgun verður fjórði leikur liðsins á mótinu. Á fimmtudaginn mætir Íslands síðan Spáni áður en liðið mætir Færeyjum á laugardagskvöldið í lokaleik sínum í milliriðlinum. Tvö efstu liðin í milliriðlinum komast áfram í 8-liða úrslit mótsins. Leikurinn á morgun hefst klukkan 17.00. Í samtali Arnars við Handkastið fyrr í dag sagði hann hinsvegar að staðan væri góð á hópnum og allar klárar fyrir utan Andreu. Það má því gera ráð fyrir því að það verður óbreyttur hópur sem mætir til leiks á morgun.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.