bolti (Egill Bjarni Friðjónsson)
Í nýjasta þætti Handkastsins vildi Arnar Daði Arnarsson, þáttastjórnandi Handkastsins opna á umræðu um þær auka Spiideo-vélar sem HSÍ keypti fyrir félögin í landinu í sumar og settu upp í íþróttahúsin í þeirri trú að það myndi bæta útsendingarnar í Handboltapassanum. Arnar Daði sagðist hafa fengið þennan umræðupunkt upp í höfuðið á sér í miðjum þætti en þegar hann hugsaði meira út í það, þá man hann ekki eftir að hafa horft á leik í Handboltapassanum þar sem félögin væru að nýta sér þessar auka myndavélar. ,,Ég var að hugsa um þessar auka Spiideo-vélar sem HSÍ keypti fyrir tímabilið og bættu við í íþróttahúsin. Er þetta einhver versta fjárfesting í langan tíma? Er einhver félög að nýta þessar auka vélar í Handboltapassanum?,” spurði Arnar Daði þá Stymma klippara og Kristin Björgúlfsson. ,,Ég man ekki eftir að hafa legið upp í sófa með fjölskyldunni og horft á Handboltapassann þar sem maður er að fá einhverja aðra vinkla,” bætti Arnar Daði við áður en Kristinn tók til máls. ,,Ég held að þar gætum við bætt okkur - að skipta á milli véla. Ég held að það sé bara okkar besti Höddi Magg. sem hefur verið að nýta sér þessa auka myndavélar í Handboltahöllinni.” Arnar Daði ímyndaði sér að þarna hafi Spiideo grætt helling með því að selja HSÍ þá hugmynd að þetta yrði frábært fyrir Handboltapassann, að áhorfendur heima í stofu myndu fá fleiri sjónarhorn af leiknum en þegar upp er staðið notar engin félög þessa tækni og fjárfestingin því glötuð.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.