Katrine Lunde (JOHN THYS / AFP)
Noregur tryggði sér heimsmeistaratitilinn með þriggja marka sigri á Þýskalandi 23-20 í úrslitaleik keppninnar sem fram fór í Rotterdam í Hollandi fyrr í dag. Eftir úrslitaleikinn var tilkynnt um valið á besta leikmanni mótsins og leikmönnum í úrvalsliðinu. Henny Reistad frá Noregi, besta handboltakona ársins 2023 og 2024 hjá IHF, var valin verðmætasti leikmaður keppninnar í annað sinn í röð þá var Henny Reistad einnig markadrottning mótsins. Að auki var úrvalslið mótsins tilkynnt en fimm þjóðir áttu fulltrúa í liðinu. Markvörður Noregs, Katrine Lunde, var valin í úrvalslið HM í annað sinn en hún var einnig valin árið 2017, en hún var að spila sinn síðasta landsleik á ferlinum. Hún hafði gefið það út fyrir mótið að þetta yrði hennar síðasta verkefni með norska landsliðinu. Þýskaland átti tvo leikmenn í úrvalsliðinu eða vinstri skyttuna Emily Vogel og vinstri hornamanninn Antje Döll. Franski línumaðurinn, Sarah Bouktit var valin besti línumaður keppninnar og hægri skyttan, Dione Housheer frá Hollandi var einnig í úrvalsliðinu. Það er venja á stórmótum að verðmætasti leikmaður mótsins er ekki valin í úrvalslið mótsins. Að lokum var Brassinn, Bruna de Paula Almeida í úrvalsliðinu sem leikstjórnandi en hún skoraði alls 33 mörk.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.