Elliði Snær Viðarsson (Instagram)
Landsliðsmaðurinn, Elliði Snær Viðarsson framlengdi samningi sínum við þýska úrvaldeildarliðið Gummersbach á dögunum. Nýr samningur Elliða við Gummersbach gildir til sumarsins 2029. Elliði Snær gekk til liðs við Gummersbach frá ÍBV sumarið 2020 og er því á sínu sjötta tímabili hjá félaginu. Hann hefur tekið þátt í miklum uppgangi félagsins en félagið var í þýsku B-deildinni er hann kom til félagsins. Guðjón Valur Sigurðsson hefur verið þjálfari liðsins frá því að hann kom til félagsins. ,,Ég skoðaði mig um og var í viðræðum við annað lið líka en þegar upp er staðið er Gummersbach liðið fyrir mig,” sagði línumaðurinn frá Vestmannaeyjum, Elliði Snær í samtali við Handkastið. ,,Ég vildi einnig halda áfram vegferðinni sem við höfum verið á og vera partur af því að koma Gummersbach aftur á þann stað þar sem liðið á heima,” sagði Elliði sem vildi nú gera lítið úr því er hann var spurður að því hvort hann væri orðinn goðsögn hjá félaginu. ,,Sjáum til hvernig staðan verður þegar þessum samningi lýkur,” sagði Elliði en verði hann hjá félaginu út tímabilið 2028/2029 þá hefur hann leikið níu tímabil hjá Gummersbach.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.