Stjörnuleikurinn (Óskar Pétur Friðriksson)
Stjörnuleikurinn í Vestmannaeyjum sem er að mörgum talinn vera stærsti leikur ársins fer fram á föstudaginn næstkomandi klukkan 17:00 í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum. Mikil spenna ríkir fyrir leiknum ár hvert en blaðamannafundur verður haldinn fyrir leikinn á Einsa Kalda á miðvikudaginn klukkan 18.00 en blaðamannafundurinn verður að sjálfsögðu sýndur í beinni á ÍBV TV. Ekki hefur verið gefið út hverjir skipa liðin sem mætast að þessu sinni en Stjörnuleikurinn hefur farið fram einu sinni á ári síðustu ár og hefur mikil og góð stemning myndast í kringum leikinn í Vestmannaeyjum þar sem stjörnur úr liði ÍBV og fyrrum leikmenn ÍBV hafa mætt og tekið þátt í leiknum. Í fyrra léku til að mynda Róbert Aron Hostert og Agnar Smári Jónsson leikmenn Vals og fyrrum leikmenn ÍBV, Rúnar Kárason leikmaður Fram og fyrrum leikmaður ÍBV. Þá tóku þeir Grétar Þór Eyþórsson og Sigurbergur Sveinsson fram skóna í leiknum í fyrra.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.