Amalie Fröland (Eyjólfur Garðarsson)
ÍBV fer brosandi inn í jólafrí eftir að hafa rótburstað ÍR í lokaumferðinni í Olís-deild kvenna á þessu ári, 36-24 á heimavelli í kvöld. Eftir jafnan fyrri hálfleik stungu Eyjastelpur af í stöðunni 11-11 og leiddu með sjö mörkum í hálfleik 20-13. Það forskot náðu ÍR aldrei að minnka og sigldu Eyjastelpur sigrinum örugglega í höfn þegar upp er staðið með tólf mörkum. Birna Berg Haraldsdóttir og Sandra Erlingsdóttir fóru á kostum í sóknarleik ÍBV í kvöld og skoruðu samtals 20 mörk. Amelía Dís Einarsdóttir skoraði fimm mörk og Alexandra Ósk Viktorsdóttir fjögur. Hjá ÍR var Katrín Tinna Jensdóttir og Sara Dögg Hjaltadóttir markahæstar með sex mörk hvor. Segja má að þessar tvær umferðir eftir heimsmeistaramótið hafi leikið ÍR liðið grátt því um helgina tapaði liðið gegn Fram á heimavelli með þremur mörkum. Skyndilega er ÍBV nú komið fjórum stigum yfir ÍR en liðin voru jöfn að stigum í HM-pásunni. Nú tekur við enn ein pásan hjá þessum liðum en Olís-deild kvenna fer aftur af stað laugardaginn 10.janúar.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.