Stiven Tobar Valencia Ísland (Beautiful Sports / Orange Pictures / DPPI via AFP)
Samkvæmt heimildum Handkastsins hefur vinstri hornamanninum, Stiven Tobar Valencia leikmanni Benfica í Portúgal verið tilkynnt af Snorra Steini Guðjónssyni landsliðsþjálfara að hann verður ekki í EM-hópnum sem tilkynntur verður í hádeginu á morgun. Snorri Steinn tilkynnir lokahóp sinn fyrir EM í hádeginu en á morgun en fyrsti leikur Íslands á EM fer fram föstudaginn 16.janúar í Kristianstad gegn Ítalíu. Ef rétt reynist að Stiven Tobar verði ekki í hópnum gefur það augaleið að Snorri Steinn hefur ákveðið að velja Orra Frey Þorkelsson leikmann Sporting og Bjarka Má Elísson leikmann Veszprém. Samkvæmt heimildum Handkastsins fengu leikmenn landsliðsins í undanförnum verkefnum símtöl í dag og í einu af þeim símtölum var Stiven Tobar tilkynnt að krafta hans yrði ekki óskað að þessu sinni. Stiven Tobar kom inn í landsliðið á síðasta stórmóti vegna meiðsla Bjarka Más en Stiven og Orri Freyr voru í landsliðshópnum í síðasta verkefni í æfingaleikjunum gegn Þýskalandi. Í aðdragandanum sagði Snorri Steinn að Bjarki Már hefði ekki verið valinn í það verkefni þar sem Snorri vissi hvað hann fær frá leikmanninum. Í nýjasta þætti Handkastsins fullyrti Einar Ingi Hrafnsson gestur í þættinum að Bjarki Már Elísson yrði ekki valinn í lokahópinn fyrir EM og hans saga væri sögð. Hópurinn verður tilkynntur klukkan 13:00 í hádeginu á morgun.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.