Agnes Lilja Styrmisdóttir (Sævar Jónasson)
Agnes Lilja Styrmisdóttir leikmaður ÍBV í Olís-deild kvenna var ekki í leikmannahópi ÍBV í síðustu tveimur sigurleikjum liðsins eftir heimsmeistaramótið. ÍBV er í jólafríi eftir tvo stórsigra í röð gegn Selfossi og ÍR. Agnes Lilja varð fyrir því óláni að olnbogabrotna í leik ÍBV gegn Stjörnunni í lokaumferðinni fyrir heimsmeistaramótið. Þetta staðfesti Magnús Stefánsson þjálfari ÍBV í samtali við Handkastið. Magnús vonast til að Agnes verði klár í slaginn með liði ÍBV í lok janúar en keppni í Olís-deild kvenna fer aftur af stað laugardaginn 10.janúar eftir jólafrí. Agnes Lilja sem er fædd árið 2008 og er unglingalandsliðskona hefur jafnt og þétt fengið stærra hlutverk í liði ÍBV í vetur undir stjórn Magnúsar sem tók við liðinu í sumar af Sigurði Bragasyni og hefur náð eftirteknarverðum árangri. Gera má ráð fyrir að Agnes missi að minnsta kosti af fyrstu tveimur leikjum ÍBV á nýju ári gegn Haukum og ÍR en liðið mætir Val sunnudaginn 25.janúar í toppslag miðað við hvernig staaðn er í deildinni í dag.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.