Kristján Örn Kristjánsson (Kristinn Steinn Traustason)
Íslenska landsliðið varð fyrir áfalli er Kristján Örn Kristjánssoni, Donni þurfti að draga sig úr íslenska landsliðshópnum sem hefur leik á Evrópumótinu 16. janúar næstkomandi. Í tilkynningu sem HSÍ sendi frá sér í morgun var sagt frá því að Donni hafi orðið fyrir meiðslum í október sem eru talin alvarlegri en haldið var í fyrstu. ,,Talið var að hann myndi ná sér af þeim meiðslum fyrir EM. Við skoðun læknateymis landsliðsins er ljóst að meiðslin eru alvarlegri en áður var talið og að áframhaldandi þátttaka í undirbúningi og keppni á EM sé ekki raunhæf á þessum tímapunkti. Í samráði við leikmanninn, læknateymi landsliðsins og forráðamenn félagsliðs hans hefur því verið tekin sú ákvörðun að Kristján Örn dragi sig úr landsliðshópnum til að einbeita sér að fullum bata,” segir í tilkynningunni frá HSÍ. Handkastið heyrði í Donna í kjölfarið og spurði hann út í meiðslin. ,,Ég hef verið að spila með verki í kviðnum síðan í byrjun október. Ég gerði svo próf með læknateyminu í landsliðinu þar sem þeir halda að þetta líklegast kviðslit. Ég fer nú til baka til Danmerkur til sérfræðinga í frekari skoðanir og myndatökur," sagði Donni sem leikur með Skanderborg í dönsku úrvalsdeildinni. Hann segir að miðað við stöðuna í dag þurfi hann að gangast undir aðgerð en vonast til að losna við það. Það komi í ljós eftir ítarlegri skoðun í Danmörku. ,,Þetta er auðvitað ótrúlega fúlt. Ég var kominn í mitt besta spilform á ævinni í byrjun tímabils og spenntur að fá að taka þátt aftur með landsliðinu. Ég lét Snorra vita þegar hann hringdi að ég væri að glíma við álagsmeiðsl en við báðir vonuðumst eftir að þetta yrði orðið betra eftir góða jólapásu. Ég bjóst ekki sjálfur við því að þetta væri svona alvarlegt," sagði Donni að lokum í samtali við Handkastið.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.