Ísland (Johan Nilsson/TT / AFP)
Farið var yfir frábæran sigur Íslands gegn Póllandi í 2.umferð riðlakeppni Evrópumótsins í uppgjörsþætti Handkastsins í gærkvöldi í beinni frá Kristianstad. Íslenska landsliðið vann átta marka sigur 31-23 fyrir framan fjölmarga íslenska stuðningsmenn sem studdu vel við liðið úr stúkunni. Það vakti hinsvegar athygli margra í stúkunni og það fór ekki framhjá Handkastinu að þegar “Lífið er yndislegt” var spilað eftir leik og allir íslensku stuðningsmennirnir tóku undir voru leikmenn íslenska landsliðsins hvergi sjáanlegir. Þegar leið á lagið mættu þó nokkrir landsliðsmenn út á gólfið og tóku þátt í gleðinni. Þeir voru alls fimm leikmennirnir sem tóku þátt og sungu með stuðningsmönnum Íslands eftir leik. Stymmi klippari opnaði á umræðuna í þættinum í boði Skolphreinsun Ásgeirs og velti fyrir sér hvar strákarnir hefðu verið? ,,Mér fannst þetta virkilega dapurt. Það kom upp mikil umræða eftir síðasta leik þegar “Lífið er yndislegt” var spilað á kostnað “Ég er kominn heim” og þetta var smá tilbreyting, ég er ennþá að reyna kaupa þetta. “Ég er kominn heim” er algjört geitalag, það var tekið í Fan-zone fyrir leik og það var trufluð stemning. Þetta lag sameinar þjóðina. Það komu gagnrýnisraddir eftir síðasta leik þegar “Lífið er yndislegt” var spilað. Sérsveitin talaði um það í Fan-zoneinu fyrir leik og sagði þar að “lífið er yndislegt” væri spilað af ósk strákanna okkar og strákarnir okkar höfðu beðið um það að lagið yrði spilað eftir leik,” sagði Arnar Daði Arnarsson, Sérfræðingurinn og hélt áfram: ,,Síðan kemur “lífið er yndislegt” eftir átta marka sigur á Póllandi og liðið var að tryggja sér áfram í milliriðil á EM fyrir framan 3000 Íslendinga og það er ekki einn leikmaður íslenska landsliðsins á gólfinu. Þeir enda síðan 4-5 leikmenn þarna við varamannabekkinn. Ég set gult spjald á landsliðið þarna. Eru þið að grínast? Hvert eru þið að fara? Eru þið að fara í símann inn í klefa á TikTok eða Instagram? Mér finnst þetta vera glórulaus hegðun. Þetta er yndisleg stund með 3000 Íslendingum, töluvert meiri stemning en nokkur leikmaður í landsliðinu fær að upplifa með sínu félagsliði og þeir láta sig hverfa eins og hauslausar hænur.” Sigurður Gísli Bond Snorrason sem var gestur strákanna í Handkastinu tók undir orð Sérfræðingsins. ,,Þetta var mjög dapurt og ég trúi ekki að þeir geri þetta aftur.”

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.