
Ísland (Johan Nilsson/TT / AFP)
Strákarnir okkar mættu Ungverjum í Kristianstad í lokaleik F riðils og óbeint fyrsta leik milliriðilsins þar sem að bæði lið voru komin áfram fyrir leik og myndu taka stigin með áfram. Um háspennuleik var að ræða sem litaðist af tveimur rauðum spjöldum, frábærri vörslu hjá Viktori Gísla Hallgrímssyni og miklum tíma í varsjánni að hálfu dómaranna. Leikurinn var jafn frá byrjun til enda, hálfleikstölur voru 14-14. Minna var um mörk í síðari hálfleik en bæði lið fóru drægan kafla án þess að skora mark, Ungverjar fóru lengst þrettán mínútur án marks. Ýmir Örn Gíslason fékk rautt spjald á 33. Mínútu fyrir að fara í andlitið á Fazekas. Máté Ónodi-Jánoskúti fékk sömuleiðis að líta rauða spjaldið á 43. Mínútu fyrir að fara í skothöndina á Ómari. Jafnt var þegar þrjár mínútur voru eftir, Gísli Þorgeir kom Íslandi yfir og í kjölfarið varði Viktor Gísli tvívegis. Í næstu sókn fiskaði Gísli Þorgeir víti sem Viggó skoraði laglega úr og Ísland komið með tveggja marka forystu þegar um mínúta var eftir. Ungverjar tóku leikhlé og stilltu upp í sókn en Viktor Gísli gerði endanlega úr vonum þeirra að ná stigi úr þessum leik með vörslu, Zoran Illic náði þó einu sárabótarmarki í blálokin, lokatölur 24-23. Viktor Gísli Hallgrímsson var maður leiksins með 19 varða bolta eða um 46,3% markvörslu. Gísli Þorgeir Kristjánsson var markahæstur í íslenska liðinu með 7 mörk, sömuleiðis var Gísli með 4 fiskuð víti og 3 stoðsendingar.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.