Gísli Þorgeir Kristjánsson (Johan Nilsson / AFP)
Framundan er mikilvægur leikur Íslands gegn Ungverjalandi í lokaleik riðilsins en bæði lið eru komin áfram í milliriðil og því er þessi leikur í kvöld mikilvægur upp á framhaldið í mótinu. Leikur Íslands og Ungverjaland er klukkan 19:30 í kvöld. Rætt var um leikinn í kvöld í uppgjörsþætti Handkastsins sem tekinn var upp í Kristianstad beint eftir sigur Íslands gegn Pólverjum á sunnudaginn. ,,Við þurfum ekki nema einn leik til að drulla á okkur. En ég er sammála því að við eigum að lifa í þeirri stemningu sem við erum í, akkúrat núna. Síðustu þrjú stórmót hefur þetta verið algjör vonbrigði, þetta er í fyrsta skipti sem ég er að fara heim af stórmóti og ég fékk að upplifa tvo sigurleiki og þvílíka stemningu. En nú þarf að sigla þessum sigri heim gegn Ungverjum á þriðjudaginn.” ,,Miðað við stemninguna hér í Kristianstad þá eru svona fjórir Ungverjar hér á móti 3000 Íslendingum. Við vinnum þennan leik 100% annað væri ótrúlegt,” sagði Sigurður Gísli Bond Snorrason. ,,Núna eru bara úrslitaleikir framundan, það er langt síðan við fórum í jafn mikilvægan leik á stórmóti eftir frekar auðvelda og sannfærandi sigra. Ég ætla ekki að segja að ég sjái eitthvað slæmt í kortunum en ég vil bara minna hlustendur á að það þarf bara einn kúkaleik en miðað við frammistöðu strákana í fyrstu tveimur leikjunum þá lítur þetta vel út,” sagði Arnar Daði meðal annars í þættinum.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.