
Inga Dís Jóhannsdóttir (Kristinn Steinn Traustason)
Fyrsti leikurinn í 14.umferð Olís-deildar kvenna fer fram í Heklu-höllinni í Garðabæ í kvöld þegar Stjarnan tekur á móti Haukum. Haukar eru að koma inn í þennan leik eftir sannfærandi sigur gegn botnliði Selfoss í síðustu umferð en Stjarnan er í næst neðsta sæti deildarinnar, með stigi meira en Selfoss. Rætt var um sigur Hauka gegn Selfossi í Handboltahöllinni sem sýnd er öll mánudagskvöld í Sjónvarpi Símans. Þar ræddi þeir Ásbjörn Friðriksson og Einar Ingi Hrafnsson um að Haukaliðið ættu töluvert meira inni en það hefur sýnt í vetur og það sé of oft þannig að annað hvort eiga allir leikmennirnir góðan leik eða slæman leik. ,,Þær detta allt, alltof langt niður og ná ekki að leysa nein vandamál í leikjum. Ef þær lenda í veseni þá eru þær í veseni,” sagði Einar Ingi meðal annars um leik Hauka í vetur. ,,Versta er að í þessum leik spiluðu þær allar vel, í leiknum spiluðu þær allar illa. Það var alveg nóg að tvær hefðu spilað vel gegn Selfossi, þær hefðu samt unnið. Þetta er einhvernveginn allt eða ekkert. Þær verða að finna útúr því,” sagði Ásbjörn Friðriksson meðal annars. Umræðuna má sjá hér að neðan.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.