Elvar Örn Jónsson (Sævar Jónasson)
Elvar Örn Jónsson, leikmaður Magdeburg og íslenska landsliðsins, verður ekki meira með á Evrópumótinu í ár eftir að hafa meiðst á hendi í leik gærkvöldsins. Þetta staðfestir HSÍ nú rétt í þessu. HSÍ segir frá því að Elvar Örn muni gangast undir aðgerð á Íslandi á morgun vegna meiðslanna sem hann hlaut í sigri Íslands á Ungverjum í gær. Hann verður frá keppni um óákveðinn tíma segir í tilkynningunni frá HSÍ. Að svo stöddu hefur ekki verið tekin ákvörðun innan íslenska teymisins um að kalla nýjan leikmann inn í hópinn. Handkastið greindi frá því í gærkvöldi að samkvæmt heimildum Handkastsins er Þorsteinn Leó Gunnarsson leikmaður íslenska landsliðisins og Porto allur að koma til eftir nárameiðsli sem hann hlaut með félagsliði sínu fyrir áramót. Vonast íslenska þjálfarateymið að Þorsteinn verði klár með íslenska landsliðinu í milliriðlinum sem hefst á föstudagskvöld. Það skýrist í kvöld hvort Ísland mætir Svíþjóð eða Króatíu í fyrsta leik sínum í milliriðlinum. Þær þjóðir mætast í kvöld og leikur Íslands gegn tapliði kvöldsins í fyrsta leik milliriðilsins.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.