Elvar Örn Jónsson (Sævar Jónasson)
Ljóst er að þátttöku Elvars Arnar Jónssonar leikmanns Magdeburg í þýsku úrvalsdeildinni er lokið með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu eftir að hann varð fyrir því áfalli að handarbrotna í sigri Íslands gegn Ungverjalandi í gær. Mikið áfall er um að ræða fyrir íslenska landsliðið og ekki síst Elvar Örn sjálfan sem hefur verið lykilmaður í íslensku vörninni á mótinu. Hann var í viðtali við íslenska fjölmiðla í Kristianstad í hádeginu í dag áður en hann heldur til Íslands en hann fer í aðgerð strax á morgun. Í viðtali við RÚV sagði hann til að mynda að gærkvöldið hafi reynst honum mjög erfitt. „Ég var mjög svekktur og pirraður, allar tilfinningarnar. En svona gerist. Maður þarf bara að sætta sig við þetta. Ég er á leið í aðgerð á morgun. Vonandi kemur bara fljótur bati," sagði Elvar Örn Jónsson í viðtali við RÚV. Í viðtali við Vísi viðurkenndi hann að honum líði ömurlega og hann hafi sofið lítið í nótt. ,,Ég verð að vera hreinskilinn með það,“ ,,Líkamlega og andlega heilsan er ekki góð. Þetta eru búnir að vera erfiðir klukkutímar og maður er enn að reyna átta sig á því að þetta sé búið. Ég fékk strax tilfinninguna að þetta væri eitthvað meira en tognun. Ég heyrði eitthvert hljóð og vonaðist til að puttinn hefði farið úr lið en svo var ekki og mig grunaði að þetta væri brot,“ sagði Elvar í viðtali við mbl.is. En hann gerir ráð fyrir að vera frá keppni í rúmlega sex vikur.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.