Victor Iturizza (BO AMSTRUP / Ritzau Scanpix via AFP)
Slóvenía verður án Matic Suholežnik í fyrstu tveimur leikjum sínum í milliriðli Evrópumótsins en hann hefur verið dæmdur í tveggja leikja bann eftir brot sitt í sigri gegn Færeyjum í gærkvöldi. Slóvenía er í milliriðli með Íslandi en ljóst er að Slóvenar verða án Suholežnik gegn sigurvegurunum í E-riðli en það skýrist í kvöld hvort það verði Svíar eða Króatar. Þá missir hann einnig af leiknum gegn Ungverjalandi næstkomandi sunnudag. Suholežnik fékk rautt spjald um miðbik fyrri hálfleiks. Þá er ljóst að varnar- og línumaðurinn Victor Iturizza leikmaður Portúgals verður í leikbanni í leiknum gegn Þjóðverjum á morgun í fyrsta leik þjóðanna í hinum milliriðlinum. Iturizza sem átti frábæra frammistöðu í vörn Portúgals í sigri liðsins gegn Dönum í gærkvöldi fékk rautt spjald fimm mínútum fyrir leikslok fyrir brot sitt á Mathias Gidsel og hefur aganefndin dæmt hann í eins leiks bann. Um er að ræða mikið áfall fyrir Portúgali sem mæta til leiks í milliriðilinn með tvö stig eftir sigurinn á Dönum í gærkvöldi.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.