
Danmörk (Bo Amstrup /AFP)
Áfram halda Danir að lenda í áföllum á Evrópumótinu en Danmörk spilar við Frakkland í fyrsta leik milliriðils í kvöld. Eftir krossbandsslit Lukas Jørgensen vildi Nikolaj Jacobsen, þjálfari Danmerkur styrkja línumannsstöðuna til öryggis, ef svo færi að barnshafandi maki Emils Bergholt færi í fæðingu. Þjálfarateymið hafði samband við tvo línumenn sem eftir voru í stækkaða hópnum en það eru þeir Andreas Magaard leikmaður HSV Hamburg og Frederik Ladefoged leikmaður Dinamo Búkarest. Ladefoged er frá vegna meiðsla í læri, en Magaard var kallaður inn í læknisskoðun. Eftir frekari skoðanir hjá læknateymi landsliðsins og í samráði við HSV Hamburg hefur nú verið ákveðið að öruggasta lausnin sé að Andreas Magaard taki ekki þátt á EM og snúi aftur til félags síns. Nikolaj Jacobsen á enn möguleika á að gera eina breytingu til viðbótar á hópnum í milliriðlinum og getur einnig bætt 20. leikmanni við hópinn ef þörf krefur.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.