
20260122-clw-r11-preview-esbjerg-text (
Það styttist í úrslitakeppnina í Meistaradeild kvenna og aðeins fjórar umferðir eftir af riðlakeppninni. Um helgina fer fram 11. umferðin, þar sem lítið verður gefið eftir. Ríkjandi meistarar Györi og topplið B-riðils, Brest, fengu bæði óvænt skell í síðustu umferð – og ætla nú að sýna að það hafi verið slys, ekki byrjun á vandræðum. Leikir helgarinnar A-riðill Storhamar - Dortmund | Sunnudagur 25.janúar kl 13:00 Esbjerg - DVSC | Sunnudagur 25.janúar kl 13:00 Buducnost - Metz | Sunnudagur 25.janúar kl 15:00 Gloria Bistrita - Györ | Sunnudagur 25.janúar kl 15:00 B-riðill FTC - Krim | Laugardagur 24.janúar kl 15:00 Brest - Odense | Laugardagur 24.janúar kl 17:00 Podravka - CSM Búkaresti | Laugardagur 24.janúar kl 17:00 Ikast - Sola | Sunnudagur 25.janúar kl 15:00
Storhamar er komið í þrönga stöðu. Norska liðið er búið að tapa sex leikjum í röð og situr í sjöunda sæti með aðeins fjögur stig. Athyglisvert er þó að síðasti sigur liðsins kom einmitt gegn Dortmund í fyrri viðureign liðanna.
Þrátt fyrir slæmt gengi hefur Storhamar enn eina bestu vörn keppninnar, á meðan Dortmund hefur átt í miklum vandræðum varnarlega. Þýska liðið vann þó mikilvægan sigur á Buducnost í síðustu umferð og ætlar að byggja ofan á það.
Esbjerg er í miklu stuði. Danska liðið hefur ekki tapað í fimm leikjum og situr í þriðja sæti riðilsins. Í síðustu umferð var það markvarsla Katharinu Filter sem lagði grunninn að sigrinum gegn Bistrita.
DVSC kemur hins vegar með sjálfstraustið í farteskinu eftir að hafa stöðvað ósigraða hrinu Györ. Alicia Toublanc er í lykilhlutverki hjá ungverska liðinu og verður spennandi að sjá hvernig Esbjerg tekst að höndla hana á heimavelli.
Buducnost er neðst í riðlinum og hefur lítið svigrúm til mistaka. Liðið missti dýrmæt stig gegn Dortmund í síðustu umferð og þarf nú nánast sigur til að halda lífi í draumnum um úrslitakeppni.
Metz kemur hins vegar með vind í seglin eftir góðan sigur á Storhamar. Sarah Bouktit er komin á toppinn yfir markahæstu leikmenn og franska liðið ætlar sér ekkert annað en tvö stig – þrátt fyrir að sögulega hafi Metz oft átt í vandræðum með svartfellska liðið.
Györ tapaði sínum fyrstu stigum í keppninni í síðustu umferð – og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Í vikunni rúlluðu Ungverjarnir yfir DVSC í deildarleik, 39:22, og skilaboðin voru skýr.
Bistrita hefur hins vegar tapað báðum leikjum sínum á árinu 2026 og hefur dalað niður í fjórða sæti. Þjálfari liðsins, Carlos Viver, veit að Györ er líklega erfiðasti mótherji heimsins, en vonast eftir sterku kvöldi á heimavelli.
FTC er á þriggja leikja sigurgöngu og hefur styrkt stöðu sína í baráttunni um beint sæti í átta liða úrslitum. Kinga Janurik hefur verið frábær í marki ungverska liðsins og liðið sýnt stöðugleika. Krim berst hins vegar fyrir lífi sínu í keppninni. Slóvenska liðið hefur aðeins fengið eitt stig í síðustu fjórum leikjum og þarf að finna lausnir sóknarlega ef eitthvað á að gerast í Búdapest.
"Leikur helgarinnar" fer fram í Brest. Heimaliðið tapaði óvænt fyrir Ikast í síðustu umferð og finnur andardrátt Odense í hálsmálinu – aðeins eitt stig skilur liðin að.
Odense kemur beint úr 15 marka sigri á Sola og hefur verið afar sannfærandi sóknarlega. Anna Vyakhireva og Thale Rushfeldt Deila verða í lykilhlutverkum í leik sem gæti haft gríðarleg áhrif á toppbaráttu riðilsins.
Podravka er í djúpri lægð, með sjö töp í röð. CSM er hins vegar komið á flug undir stjórn Bojanu Popovic, með tvo sterka sigra í röð og nýtt sjálfstraust.
Heimaliðið þarf nánast fullkominn leik til að stöðva gestina, sem eru orðnir fastagestir í toppbaráttu riðilsins.
Ikast er enn í sæti sem gefur möguleika á áframhaldandi baráttu, eftir stórsigur í Brest. Stine Skogrand og Julie Scaglione hafa verið í lykilhlutverkum.
Sola náði sínu fyrsta stigi í keppninni fyrr í mánuðinum, en fékk harkalegan skell gegn Odense í síðustu umferð. Verkefnið í Ikast er erfitt – en ekkert ómögulegt.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.