Viggó í svipuðu hlutverki og hann bjóst við – Vill spila meira
{{brizy_dc_image_alt entityId=

Ísland - Óðinn Þór Ríkharðsson - Viggó Kristjánsson (JOHAN NILSSON / TT News Agency via AFP)

Viggó Kristjánsson var ískaldur tvívegis á vítalínunni undir lok leiks Íslands og Ungverjalands á þriðjudaginn og skoraði tvö mikilvæg mörk sem að lokum dugðu til að vinna Ungverjaland með einu marki.

Handkastið hitti Viggó Kristjánsson á liðshóteli íslenska landsliðsins í gær, degi fyrir mikilvægan leik gegn Króatíu sem hefst klukkan 14:30 í dag.

,,Hjartslátturinn á vítalínunni var fínn. Ég var nýbúinn að klikka víti gegn þessum markverði í þýsku úrvalsdeildinni fyrir sigri og ég vissi hvað ég hefði viljað laga þá og sem betur fer náði ég að gera það í þessum leik.”

,,Ég myndi vilja taka öll víti og ef ég fæ tækifæri til þess að taka víti, þá er það engin spurning,” sagði Viggó en hvernig finnst honum hlutverk hans hafa verið á mótinu hingað til?

,,Svipað og ég bjóst við. Að því sögðu myndi ég vilja vera að spila meira en hlutverkið hefur verið svipað og ég bjóst við. Ég vil spila allar mínútur alveg eins og Ómar vill spila allar mínútur. Það er bara samkeppni og það er bara gott. Við styðjum hvorn annan og á endanum snýst þetta um að vinna leiki og hingað til hefur það gengið upp. Það er enginn í fýlu þegar svo er.”

Framundan er mikilvægur leikur gegn Króatíu í fyrsta leik milliriðilsins á Evrópumótinu. Ísland er með tvö stig en Króatar eru án stiga eftir tap gegn Svíum í vikunni.

,,Þetta verður erfiður leikur og þeir eru með bakið upp við vegg alveg eins og þeir voru með gegn okkur í fyrra. Það kæmi mér ekki á óvart að þeir myndu spila framliggjandi vörn gegn okkur eins og í fyrra. Það er ekki einfalt verkefni. Í raun er lítið hægt að segja, það er bara hægt að svara fyrir tapið í fyrra inná vellinum. Það verður að koma í ljós í leiknum hvort við höfum lært af því eða ekki.”

Er liðið betur undirbúið fyrir leikinn í dag heldur en fyrir leikinn gegn Króatíu í Zagreb í fyrra sem reyndist liðinu dýrt en um var að ræða eina tap íslenska liðsins á heimsmeistaramótinu í fyrra. Það hafði þau áhrif að Ísland komst ekki í 8-liða úrslit mótsins.

,,Við erum meira undirbúnir fyrir 5-1 vörnina en í fyrra. Það kom okkur svolítið á óvart að þeir hefðu farið í 5-1 vörnina í fyrra þar sem þeir höfðu ekki gert það fyrir það á mótinu. En að sjálfsögðu verðum við meira undirbúnir fyrir það í þessum leik. Við erum með hugmyndir af lausnum en það er eitt að tala um það og annað að framkvæma það á vellinum,” sagði Viggó Kristjánsson meðal annars í viðtali við Handkastið á liðs hóteli íslenska landsliðsins í Malmö.

Nýjustu fréttir

{{brizy_dc_image_alt imageSrc=

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top