
Þórey Anna Ásgeirsdóttir (Egill Bjarni Friðjónsson)
14.umferðin í Olís-deild kvenna heldur áfram í dag með einum leik þegar topplið Olís-deildar kvenna, ÍBV og Valur mætast í Vestmannaeyjum. Liðin eru jöfn að stigum með 22 stig á toppi deildarinnar fyrir leikinn í dag. Valur vann sannfærandi 15 marka sigur á KA/Þór á heimavelli í síðustu umferð. Í Handboltahöllinni sem sýnd er öll mánudagskvöld í opinni danskrá í Sjónvarpi Símans var farið yfir frammistöðu tveggja leikmanna í Valsliðinu í sigrinum gegn KA/Þór. Fyrst ber að nefna frammistöðu Hafdísar Renötudóttur markmanns Vals sem var með yfir 50% markvörslu í markinu og þá var farið yfir frammistöðu landsliðshornamannsins, Þóreyjar Önnu Ásgeirsdóttur sem var frábær í leiknum og skoraði mörk úr öllum regnboganslitum í leiknum. ,,Þórey hefur verið lengi í deildinni og er bæði að spila í horninu og í skyttunni. Hendin á henni hefur alltaf verið langt yfir meðallagi hjá kvenmannsleikmanni. Hún hefur frábæra skothönd. Þetta er hrikalega vel gert. Það sem hún hefur verið að bæta ár frá ári er að hún er orðin betri varnarmaður og hún er miklu betri að skila sér í vörnina," sagði Einar Ingi Hrafnsson meðal annars um Þóreyju Önnu og bætti við að þrátt fyrir að vera búin að vera lengi í deildinni og búin að vinna nánast allt sem hægt er að vinna, er hún enn að bæta sinn leik. Umræðuna um Þóreyju Önnu og Hafdísi má sjá hér að neðan.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.