Nikola Portner (Ronny HARTMANN / AFP)
Fyrir næstum tveimur árum síðan féll Nikola Portner markvörður Magdeburg og svissneska landsliðsins á lyfjaprófi en hann hefur haldið fram sakleysi sínu frá fyrst degi. Í lyfjaprófi sem Portner gekkst undir greindust leyfar af methamfetamíni. Í kjölfarið var svokollað B-sýni rannsakað og leiddi það til sömu niðurstöðu. Tveimur mánuðum síðar vísaði lyfjanefnd þýska handknattleiksambandsins málinu frá og ákvað að úrskurða Portner ekki í leikbann. Nikola Portner gat því klárað síðustu leiktíð með Magdeburg sem vann Meistaradeild Evrópu um miðjan júní. Lyfjaeftirlit þýska íþróttasambandsins ákvað hinsvegar viku síðar að taka mál hans aftur upp. Nikola Portner var í ágúst settur í tímabundið æfinga- og keppnisbann. Hann mátti síðan hefja æfingar á ný átta vikum síðar og mátti síðan spila sinn fyrsta leik aftur eftir 10. desember á síðasta ári. Í viðtali við TV 2 Sport talar Portner um hversu erfiður tími er að baki fyrir sig og sína fjölskyldu andlega. ,,Það fer margt í gegnum höfuðið á manni og maður missir stjórn á því sem er að gerast í kringum mann. Það er eins og það er. Ég er bara ánægður að þetta sé búið. Þetta snerist ekki bara um mig, heldur líka um börnin mín og konuna mína. Þau urðu að minnsta kosti jafn mikið fyrir áhrifum á þessu og ég.“ Landsliðsþjálfari Sviss, Andy Schmid, hrósar Portner fyrir hvernig hann tókst á við þessa óheppilegu stöðu og segir að Portner hafi snúið aftur á handboltavöllinn eins og hann hafi aldrei verið í burtu. Portner hefur staðið vaktina með Sviss á Evrópumótinu og var með rúmlega 30% markvörslu í jafntefli Sviss gegn Ungverjalandi á föstudaginn. Sviss mætir Króatíu í Malmö í kvöld klukkan 19:30 en Portner verður síðan í eldlínunni gegn Íslendingum á þriðjudaginn þegar Ísland og Sviss mætast í milliriðli Evrópumótsins.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.