Tinna Valgerður Gísladóttir (Egill Bjarni Friðjónsson)
KA/Þór tók á móti Fram í lokaleik 14.umferðar Olís deildar kvenna á Akureyri í dag. Liðin voru í fimmta og sjötta sæti í Olís deildinni fyrir leikinn í dag. KA/Þór byrjaði leikinn töluvert betur og komust í 4-1 eftir tæplega 10 mínútna leik en liðin áttu bæði í basli með sóknarleikinn í dag. Fram náðu að vinna sig hægt og rólega inn í leikinn og voru einu marki yfir þegar flautað var til hálfleiks 9-10. Það sama var uppi á teningnum í upphafi síðari hálfleiks og var mikið jafnræði með liðunum. Fram náði aðeins að slíta sig frá norðanstelpum undir lok síðari hálfleiks og voru með fjögurra marka forskot þegar um fimm mínútur voru eftir af leiknum og allt virtist stefna í sigur Fram. KA/Þór náðu þó að klóra í bakkann 20-21 og varði Bernadett Leiner vítakast þegar um 10 sekúndur voru eftir af leiknum en KA/Þór náði ekki að gera sér mat úr því og eins marks sigur Fram í höfn, 20-21. Trude Blestrud Hakonsen var markahæst hjá KA/Þór með 7 mörk en hjá Fram var Hulda Dagsdóttir markahæst með 6 mörk. Markmenn beggja liða áttu flottan leik í dag en Bernadett Leiner var með 39% vörslu hjá KA/Þór í dag og hjá Fram kom Arna Sif Jónsdóttir inná um miðjan leik og varði 40% skotanna sem komu á hana. Með sigrinum er Fram komið í upp í 4.sætið með 15 stig en KA/Þór eru áfram í 6.sæti deildinnar með 11 stig.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.