Jim Gottfridsson - Max Dark (JOHAN NILSSON / TT News Agency via AFP)
Leikmenn sænska landsliðsins voru hálf vankaðir eftir átta marka tap Svía gegn Íslandi í öðrum leik þjóðanna í milliriðli Evrópumótsins í Malmö í dag. Ísland vann leikinn 35-17 eftir að hafa verið 18-12 yfir í hálfleik. Svíar voru sterkari fyrri helming seinni hálfleiksins og minnkuðu muninn í eitt mark en lengra komust þeir ekki og íslenska liðið reyndist sterkari aðilinn þegar upp var staðið. „Við töpum fyrir liði sem var klárlega betra liðið í þessum leik. Við ræddum hvernig við ætluðum að spila í vörninni en við náðum alls ekki að spila eins og við ætluðum okkur. Þeir unnu nánast öll einvígi maður á mann í leiknum,“ sagði Albin Lagergren sem var markahæstur í liði Svía í dag með fimm mörk í viðtali við Sportbladet ,,Þeir spiluðu frábæran leik og voru klárlega betra liðið. Svona er þetta stundum. Hvað það er nákvæmlega sem gerir það að verkum að við erum ekki nógu góðir í dag er erfitt að svara núna. Akkúrat núna er þetta mjög erfitt, maður er vonsvikinn með sjálfan sig og alla frammistöðuna,” sagði Albin Lagergren og benti á að í dag væri kominn nýr dagur og það væri fullur fókus á næsta leik. Þetta væri ennþá í höndum Svía að komast í undanúrslit Evrópumótsins. Jim Gottfridsson var óvænt í meira hlutverki í þessum leik heldur en í öðrum leikjum Svía á þessu móti. ,,Þetta er súrt, þetta er slæmt. Það er hægt að tapa en maður á ekki að tapa með átta marka mun í landsleik, finnst mér,“ sagði Jim Gottfridsson. ,,Við mættum ótrúlega góðu íslensku liði í dag. Þeir eru ótrúlega góðir í einn á einn og vinna hundrað einvígi í fyrri hálfleik, finnst manni. Mér fannst við gera betur í seinni hálfleik, þess vegna komumst við aftur inn í leikinn en svo veit ég ekki hvað gerðist,“ sagði Lukas Sandell.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.