Rakel Sara Elvarsdóttir (Sigurður Ástgeirsson)
Rakel Sara Elvarsdóttir hægri hornamaður KA/Þórs í Olís-deild kvenna leikur ekkert meira með liðinu á tímabilinu. Þetta staðfesti Jónatan Magnússon þjálfari liðsins í samtali við Handkastið. KA/Þór eru nýliðar í Olís-deild kvenna en hafa komið mörgum á óvart með stigasöfnun sinni á tímabilinu. Rakel hefur orðið fyrir því óláni að slíta krossband í annað sinn á stuttum tíma en hún náði einungis að leika fimm leiki með liðinu á tímabilinu. Rakel Sara sleit krossband fyrst á æfingu með liði KA/Þórs í desember árið 2023 en hún lék níu leiki með liðinu það tímabil. Hún lék hinsvegar ekkert með liðinu á síðustu leiktíð en sneri til baka á völlinn á þessu tímabili. Um er að ræða slæm tíðindi bæði fyrir KA/Þór en þá allra helst leikmanninn sjálfan sem hafði verið í langri endurhæfingu eftir fyrra krossbandaslit. Rakel Sara á að baki níu A-landsleiki með íslenska landsliðinu en hún var valin efnilegasti leikmaður Olís-deildarinnar tímabilið 2020/2021 þegar KA/Þór varð Íslands- deildar og bikarmeistari. Tímabilið eftir var ekki síðra hjá Rakel Söru áður en hún hélt til Noregs og lék eitt tímabil með Volda.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.