
Ágúst Elí Björgvinsson (Egill Bjarni Friðjónsson)
Markvörðurinn, Ágúst Elí Björgvinsson var kynntur sem nýr leikmaður KA stuttu eftir sigur liðsins á Fram í 8-liða úrslitum Powerade-bikarsins rétt fyrir jól. Ágúst Elí er fluttur norður á Akureyri og er byrjaður að æfa með sínu nýja félagi en hann rifti samningi sínum við Ribe-Esbjerg fyrir áramót. Hann fékk engin tækifæri með liðinu á þessu tímabili en hann lék með dönsku meisturunum í Álaborg á láni í upphafi tímabils vegna meiðsla Niklas Landin markvarðar Álaborgar. ,,Fyrstu dagarnir hafa verið góðir. Það er mjög gott að vera fluttur á Akureyri og allir í KA hafa tekið frábærlega á móti okkur fjölskyldunni,” sagði Ágúst Elí í samtali við Handkastið á dögunum. ,,Það var ýmislegt í boði fyrir mig að spila erlendis en ekkert sem okkur fjölskyldunni fannst réttlætanlegt og var nógu spennandi fyrir okkur,” sagði Ágúst Elí aðspurður hvort það hafi staðið honum til boða að vera áfram erlendis að spila. ,,Ég er bara spenntur fyrir því að vera kominn í KA og spila fyrsta leikinn með liðinu eftir Evrópumótið. Hópurinn er búinn að taka vel á móti mér,” sagði Ágúst Elí og bætti við að fyrst og fremst væri hann spenntur fyrir því að fara loksins að spila handboltaleiki á nýjan leik. En hefur hann fylgst mikið með íslensku deildinni meðan hann hefur verið erlendis að spila? ,,Nei ég verð að viðurkenna að ég hef ekki verið djúpur í íslensku deildinni síðustu ár en ég hef auðvitað fylgist vel með úrslitakeppninni, bikarnum og FH-Haukar leikjunum.” Stefnir hann á að fara aftur út í atvinnumennskuna? ,,Maður veit aldrei, ég er allavegana með fullan fókus á KA núna og er með samning út sumarið 2027. Það getur allt gerst og hlutirnir geta verið mjög fljótir að gerast í þessum bransa. Það þarf þá bara að koma í ljós ef það er eitthvað nægilega spennandi sem kemur upp. Það er allt saman seinni tíma hausverkur,” sagði markvörðurinn að lokum í samtali við Handkastið.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.