Björgvin Páll Gústavsson (Sævar Jónasson)
Fimm ár eru síðan Ísland tapaði gegn Sviss í milliriðlum heimsmeistaramótsins sem fram fór í Egyptalandi í janúar 2021. Sviss vann leikinn með tveimur mörkum 20-18. Ólafur Andrés Guðmundsson var markahæstur í liði Íslands með fjögur mörk en Björgvin Páll Gústavsson kom næstur með tvö mörk ásamt fleiri leikmönnum íslenska liðsins. Ísland mætir Sviss í Malmö Arena klukkan 14:30 í dag í næst síðustu umferð milliriðlanna. Vinni Ísland leikinn í dag og gegn Slóveníu á morgun tryggir liðið sér sæti í undanúrslitum Evrópumótsins sem fram fer í Herning í Danmörku um næstu helgi. Andy Schmid þjálfari svissneska landsliðsins í dag, skoraði sigurmark Sviss í leiknum á HM 2021 sem tryggði Sviss sigurinn í leiknum. Sjö leikmenn í íslenska landsliðshópnum í dag voru í leikmannahópi Íslands í tapinu gegn Sviss. Það eru þeir, Björgvin Páll Gústavsson, Arnar Freyr Arnarsson, Ýmir Örn Gíslason, Elliði Snær Viðarsson, Bjarki Már Elísson, Gísli Þorgeir Kristjánsson og Viggó Kristjánsson. ,,Það væri held ég bara týpískt að klúðra þessu, það er bara sannleikurinn sko. Við þurfum bara alvöru frammistöðu. Þeir eru hættulegir því þeir spila aðeins öðruvísi en önnur lið. Þeir spila oft með fjóra í útilínunni og spila sjö á móti sex. Kannski líkt Ítalíu en á öðru kaliberi, bara betri,” sagði Viggó Kristjánsson leikmaður íslenska landsliðsins í viðtali við RÚV í aðdraganda leiksins í dag.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.