Orri Freyr Þorkelsson (Sævar Jónasson)
Þegar allt er undir er eins og íslensku strákarnir höndli ekki pressuna. Íslenska landsliðið var langt frá sínu besta þegar liðið mætti Sviss í næst síðustu umferð milliriðla Evrópumótsins. Liðið var í bílstjórasætinu í riðlinum eftir sigur á Svíþjóð í síðustu umferð. Nú er staðan hinsvegar orðin svört og þarf Ísland að treysta á hagstæð úrslit úr öðrum leikjum. Lokatölur í dag 38-38 en staðan var jöfn í hálfleik 19-19. Ísland fékk tækifæri til að skora sigurmarkið í lokasókn leiksins sem var illa uppsett og komu íslensku strákarnir ekki skoti á markið. Jafntefli niðurstaðan. Markvarslan í leiknum var undir pari og þeir fáu boltar sem markverðir Íslands vörðu í leiknum fóru annað hvort aftur til baka til Svisslendingana eða þá að Björgvin Páll Gústavsson reyndi tvívegis skot yfir í tómt markið sem geigaði. Orri Freyr Þorkelsson og Elliði Snær Viðarsson voru markahæstir með átta mörk hvor. Orri Freyr er maður leiksins að mati Handkastsins. Elliði var í vandræðum varnarlega ásamt Ými Erni Gíslasyni í miðblokkinni í leiknum. Arnar Freyr Arnarsson átti hræðilega innkomu í fyrri hálfleiknum og klikkaði öllum þremur skotum sínum í leiknum og fær 2 í einkunn. Haukur átti fína innkomu í fyrri hálfleiknum en fékk lítið að spila í seinni hálfleik. Gísli Þorgeir skoraði fimm mörk og gaf tíu stoðsendingar en átti þrjá tapaða bolta sem reyndist dýrir. Janus Daði var flottur sóknarlega en var í vandræðum varnarlega eins og nánast öll varnarlínan. Einar Þorsteinn var skástur Íslendinga varnarlega og stal meðal annars tveimur boltum sem skiluðu auðveldum hraðaupphlaupsmörkum. Einkunnir Íslands má sjá hér: Björgvin Páll Gústavsson - 3 Viktor Gísli Hallgrímsson - 5 Arnar Freyr Arnarsson - 2 Bjarki Már Elísson - Spilaði ekkert Einar Þorsteinn Ólafsson - 7 Elliði Snær Viðarsson - 6 Gísli Þorgeir Kristjánsson - 7 Haukur Þrastarson - 6 Janus Daði Smárason - 5 Orri Freyr Þorkelsson - 8 Óðinn Þór Ríkharðsson - 7 Ómar Ingi Magnússon - 6 Teitur Örn Einarsson - Spilaði ekkert Viggó Kristjánsson - 6 Ýmir Örn Gíslason - 3 10 - Óaðfinnanleg frammistaða
9 - Frábær frammistaða
8 - Mjög góður
7 - Góður
6 - Ágætur
5 - Þokkalegur
4 - Lélegur
3 - Mjög lélegur
2 - Arfa slakur
1 - Óboðleg frammistaða

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.