
Ísland (Johan Nilsson/TT /AFP)
Það voru senur í Rapyd-stúdíóinu í gærkvöldi þegar Handkastið hóf upptökur af uppgjörsþætti sínum eftir jafntefli Íslands gegn Sviss í gær. Upptökurnar hófust í hálfleik í leik Svíþjóðar og Ungverjalands og var öll umræðan um leik Íslands og Sviss lituð af því að Ísland væri ekki lengur með það í hendi sér að tryggja sér í undanúrslitin. Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfari Víkings í Grill66-deildinni þekkir svissneskan handbolta betur en handarbakið á sér en hann þjálfaði í svissnesku deildinni í fjölda ára auk þess að þjálfa í Þýskalandi áður en hann kom heim þar síðasta sumar. Aðalsteinn var gestur Handkastsins í gærkvöldi og fékk það hlutverk að hefja umræðuna um frammistöðu Íslands í jafnteflinu gegn Sviss, 38-38. ,,Það er erfitt að ákveða hvar maður á að byrja. Mér fannst rosalega erfitt að sjá hvert leikplanið var varnarlega í leiknum. Innstilling leikmanna og eins og menn hafi mætt með eitthvað vanmat eftir að hafa verið hátt uppi eftir sigurinn gegn Svíum en ná engri innstillingu inn í þennan leik og eru að bíða eftir því að Svissverjarnir káli sér sjálfir. Þetta er ófyrirgefanlegt af mörgu leiti. Einvigí maður á mann, miðjublokkin okkar er út og suður og þetta var ekki til útflutnings," sagði Aðalsteinn og hélt áfram. ,,Maður hefur upplifað þennan leik mörgum sinnum áður sem þjálfari. Það er eitthvað vanmat og menn mæta ekki rétt stilltir og halda sér samt einhvernveginn inn í leiknum en gera síðan nógu illa til að klára stóra verkefninu og þannig endaði þessi leikur. Við vorum eftir í öllum þáttum leiksins, hvað varðar ákefð og framlag." Aðalsteinn tók dæmi í leiknum þegar Janus Daði Smárason fékk dæmdar á sig tvær mínútur. ,,Það er fast í mér 2 mínútur sem Janus Daði fékk. Í fyrsta skipti er liðið í tómu brasi en samt er jafnt og meiri segja svekkelsið hans var gervi. Það var ekki einu sinni innlifun í svekkelsinu að fá á sig tvær mínútur og hann er eitthvað að gretta sig en engin innlifun. Ákafinn í liðinu miðað við Svíaleikinn, þá var þetta ekki 10 eða 20% af því sem við sáum gegn Svíþjóð. Allt frá attitude og vilja og stemningu.” Í miðjum þætti varð það síðan ljóst að Svíþjóð og Ungverjaland gerðu jafntefli og skyndilega var Ísland aftur komið í bílstjórasætið. Ísland mætir Slóveníu á morgun klukkan 14:30 og þarf sigur til að tryggja sér sæti í undanúrslit Evrópumótsins.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.