Gísli Þorgeir Kristjánsson (Johan Nilsson / AFP)
Gísli Þorgeir Kristjánsson átti hreint út sagt frábæran leik fyrir íslenska landsliðið í átta marka sigri liðsins gegn Svíþjóð í Malmö Arena í gærkvöldi. Gísli Þorgeir gerði sér lítið fyrir og skoraði þrjú mörk í leiknum, gaf ellefu stoðsendingar og fiskaði fjögur víti í leiknum. Ísland vann leikinn 35-27 og kom Gísli óbeint að helmingi marka Íslands í leiknum, sem er ótrúleg tölfræði. Handkastið gerði upp sigurinn gegn Svíum í uppgjörsþætti sínum í hlaðvarpsformi strax að leik loknum. Stymmi klippari fékk þá Einar Inga Hrafnsson og Ásgeir Jónsson til sín og þá var hringt út til Malmö þar sem Sérfræðingurinn var. Einar Ingi kláraði umræðu sína um sóknarleik Íslands í sigrinum gegn Svíþjóð með orðunum, ,,Síðan er Gísli bara Gísli." Stymmi klippari tók undir þau orð. ,,Þetta er besta frammistaða sem ég hef séð með Gísla Þorgeiri í landsleik. Talandi um þunga treyju á Ómari Inga. Gísli hefur gjörsamlega sprungið út á þessu móti." ,,Hann hefur verið algjörlega stórkostlegur á þessu móti," sagði Ásgeir Jónsson. Íslenska landsliðið mætir því svissneska klukkan 14:30 í Malmö í dag í næst síðasta leiknum sínum í milliriðli Evrópumótsins. Ísland dugar að vinna báða sína leiki til að tryggja sér sæti í undanúrslitum mótsins.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.